Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Side 128
„DRAUgAR Í SKElINNI“?
133
og hvers vegna við tökum svo alvarlega muninn á eftirlíkingu eða fölsunum og
svo því sem er upprunalegt og ekta. Hvað er til dæmis það sem skilur listaverk
frá öðrum verkum?9 Bloom leggur einnig áherslu á að eðlislæg tvíhyggja okkar
hafi áhrif á tilfinningar okkar til annars fólks, siðferðilegar skynjanir okkar og
skilning, meðal annars hvernig við gerum mun á réttu og röngu og jafnframt
viðhorf okkar til dauðans.
Paul Bloom beinir athygli sinni að verundarhyggju eða eðlishyggju (e. essenti-
alism) í bók sinni How Pleasure Works sen kom út 2010 og fjallar um leyndardóma
unaðarins eða lystisemdanna (e. pleasures). Þessi vellíðan er til að mynda bundin
listum, tónlist, bókmenntum, masókisma og trúarbrögðum.10 En þessi tilfinning
sem tengist til dæmis mat og kynlífi er ekki einvörðu bundin manninum því að
hún einkennir margar aðrar lífverur. Bloom telur af þessum sökum að mann-
legur unaður eigi sér ekki rætur í náttúruvali eða öðru slíku þróunaferli heldur
sé afurð menningar okkar.
Í hugrænum fræðum tengjast spurningar um lystisemdirnar ýmsu er varðar
verundarhyggju, svo sem þeirri trú okkar að hlutir hafi í sér ósýnilegan kjarna
sem geri þá að því sem þeir eru. Bloom telur að við höfum þróað með okkur
eðlishyggju til þess að átta okkur á heiminum en hún hafi ýtt hvötum okkar og
löngunum í áttir sem hafa ekkert að gera með það að lifa af eða fjölga okkur.
Íþróttir, listir, tónlist, leiklist, bókmenntir og trúarbrögð séu meðal þeirra þátta
sem geri okkur mannleg og við getum ekki skilið neitt af þessu án þess að átta
okkur á því hvernig unaður virkar.11
Í bókinni The Sweet Spot sem kom út 2013 heldur Bloom áfram á sömu braut
en beinir nú athygli sinni fremur að sársauka og þjáningu, og veltir því fyrir sér
hvernig reynsla af tilfinningum, eins og ótta og sorg, veiti okkur ánægju eða
unað. Rétt tegund af sársauka geti skapað forsendur fyrir aukinni ánægju síðar
meir; það sé gjaldið sem við greiðum fyrir verðlaun í framtíðinni.12 Kvöl geti
dregið athygli okkar frá því sem við örvæntum yfir og jafnvel aðstoðað okkur
við að víkka út sjálfið. Að velja það að þjást getur þjónað félagslegum mark-
miðum, það getur afhjúpað hversu sterk við erum og/eða á mótsagnakenndan
hátt, verið ákall eftir hjálp. Óþægilegar tilfinningar líkt og ótti og sorg geta verið
notaðar í leik, fantasíum og skemmtun, líkt og sjá má í ýmiss konar sögum og
9 Sama heimild, 32%.
10 Paul Bloom, How Pleasure Works. The New Science of Why We Like What We Like, New York/
London: W.W. Norton & Company, 2010, epub, 1%.
11 Sama heimild, 3%.
12 Paul Bloom, The Sweet Spot, Suffering, Pleasure and the Key to a Good Life, london: The Bodley
Head, 2021, bls. xii.