Uppeldi og menntun - 01.01.1997, Page 32
„ A F Þ V í LÆ R A BÖRNIN MÁLIÐ"
tæknina „að tengja", en hún gerir barninu kleift að lesa ný og óþekkt orð. Markmið
kennslunnar í báðum skólunum var að börnin lærðu „að tengja" í lok skólaársins
og gætu örlítið lesið sjálf. Margir fræðimenn staðfesta (t.d. Clay 1991b, Hagtvet
1988) að farsæl leið til að læra lestrartæknina sé fjölbreytt vinnubrögð með mál og
texta strax í upphafi skólagöngu þar sem barnið er virkt og skapandi. Einnig þarf
barninu að vera ljós tilgangurinn með lestrarnáminu og að það sé í samhengi við
þarfir þess.
Ekki var unnt að meta fjölbreyttar leiðir í lestrarkennslunni þar sem ferli hennar
var eins frá fyrsta bókstaf sem var kenndur til hins síðasta í stafrófinu. Það er
mikilvægt fyrir kennara að ígrunda allar áherslur sem valdar eru í lestrarnámi því
að þær þurfa að taka mið af fjölbreyttum leiðum í viðleitninni til þess að hjálpa
barni að læra að lesa. Þessu til áréttingar má benda á það sem tekið er fram í Aðal-
námskrá grunnskóla um að lestrarnám sé í beinum tengslum við málþroska nemenda
og eigi að taka mið af áhuga þeirra, getu og þroska við upphaf skólagöngu og að
mismunandi aðferðir eigi að koma til greina við lestrarkennsluna (1989:68).
Þróun talmáls, lestrar og ritunar fer saman á órjúfanlegan hátt eins og margir
fræðimenn benda á (Snow 1983, Snow og Nino 1986 og Clay 1986). Barn sem les
ræður því við alla þessa þætti. Ritun krefst þess að barn noti alla þekkingu sína á
hlutverki móðurmálsins, kunni form þess, hljóð og merkingu. Barn glímir við
flókna færni þegar það spreytir sig á ritun. Rannsóknir sýna að ritun virðist nær-
tækari og haldbetri leið fyrir barnið í byrjun að fikra sig eftir en lestur. Athyglisvert
er því að í báðum skólum var reynslan sú að þrátt fyrir hvatningu til ritunar og
sögugerðarbók reyndu fá börn að skrifa texta frá eigin brjósti fyrsta skólaárið.
Hvers vegna svo er væri verðugt að athuga því að ætla má að skýringin felist með
einhverjum hætti í ferli lestrarkennslunnar. Þessi reynsla kennaranna um ritun
barna er ekki síður umhugsunarverð með tilliti til þess áhuga sem mörg börn sýna í
leikskóla á því að „skrifa" sjálf.
Hver og einn lærir að lesa og skrifa á sínum forsendum. Lestur og ritun byggir
á táknum og þurfa flestir kennslu til að geta tileinkað sér þau. Þarft er að minnast
að börn eru misjafnlega tilbúin til þess þegar þau byrja í grunnskóla. Rétt eins og í
málþróun þurfa margir þættir máls að koma saman og þróast sem órofa heild í
lestrarnáminu. Eftirtektarverð er sú einhliða áhersla sem lögð var á það í skólunum
að börn lærðu að þekkja bókstafina og hljóð þeirra og lærðu tæknina við að tengja
þau fyrsta skólaárið. í Aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að miða á við að góðri
lestrarhæfni sé náð við átta til níu ára aldur (1989:68). Þetta bendir til þess að kenn-
arar þyrftu að skilgreina hvað felst í góðri lestrarhæfni og velja aðferðir í móður-
málskennslu fyrstu skólaárin í samræmi við það.
Starfsfólk grunnskólans beindi skilningi á uppeldishlutverki sínu fyrst og
fremst að skólanum og markmiðum hans í starfi og kennslu. Talið var að fjöldi
barna í bekk hefði afgerandi áhrif í þessu sambandi. Kennurum var ljóst að skipu-
lagið í kennslu hafði takmarkanir þegar um tuttugu börn voru nær alltaf í einum
hóp með kennara sínum. Þeir töldu einnig að ekki væri hægt að horfa fram hjá
þeim mikla þroskamun sem var staðreynd í hvorum bekk og töldu að skólinn væri
ekki nægjanlega sveigjanlegur til að mæta miklum einstaklingsmun í námi. Komu
30