Tímarit Máls og menningar - 01.12.1974, Blaðsíða 72
Rögnvaldur Finnbogason
Helgimyndir og myndbrjótar
Til er gömul sýrlenzk sögn um það, að farið hafi bréfaskipti milli Krists og
Abgarusar nokkurs, smákonungs í Edessu. Sagan virðist vel kunn á dögum
Evsebiusar kirkjuföður, en hann var biskup í Cesareu á fyrri hluta 4. aldar,
vildarvinur og ráðgjafi Konstantíns mikla. Biskup greinir frá bréfi þessu í
Kirkjusögu sinni, sem nær fram til ársins 324. En svo undarlegt sem það
kann að virðast, láist biskupi að geta um andlitsmynd þá af Kristi, gjörða á
líndúk, er sagan segir að hann liafi sent konungi í þakklætisskyni fyrir að
hann skyldi bjóða honum hæli og skjól innan virkismúra Edessuborgar fyrir
yfirgangi Júða, en konungur hafði jafnframt leitað á náðir Krists til að fá
lækningu meina sinna. Myndin sá að vísu ekki dagsins ljós fyrr en 5 öldum
síðar, en þessi langa gleymskuþögn um jafnhelgan dóm og nákvæma andlits-
mynd Frelsarans er skýrð með fáfræði frumkirkjunnar, en einhver af hennar
þjónum hafði huslað myndina í veggskáp kirkju, þaðan sem hún var dregin
fram í dagsljósið hálfu árþúsundi síðar af merkum biskupi, svo samtíð hans
fengi sýnt dýrgripnum viðhlítandi lotning.
Fyrsta undur og stórmerki er gerðist í sambandi við mynd þessa var það,
að hún barg borginni Edessu úr herkví Nússhirvans, sem um hana sat. Brátt
komst sú saga á kreik, að myndin væri tryggðapantur er Kristur hefði gefið
borginni, svo hún félli aldrei í hendur óvinaherjum. Hinn forni sagnaritari
Procopius segir að vísu nokkuð á aðra lund frá viðureign Edessumanna og
hins persneska herkonungs Nússhirvans. Harðfylgi og hetjuleg vörn borgar-
búa ásamt með ríflegu lausnargjaldi hafi bjargað borginni. En hann nefnir
hvergi að þar hafi hið helga palladium - eða andlitsmynd Krists - komið við
sögu, þótt Evagrius kirkjusöguritari beri hann fyrir þeirri sögn, að þá er
helgidómurinn hafi verið borinn fram á virkisveggi Edessu hafi eldur og
eimyrja hlaupið á her Persa og stökkt þeim á flótta. - En eftir þessa lausn,
sem öll var þökkuð hinum helga dómi, var myndinni sýnd hin dýpsta lotning
og valin veglegri staður en fyrr. Og þótt Armeningar legðu aldrei trúnað á
sögu þá sem hér er sögð, gerðu Grikkir það.
198