Tímarit Máls og menningar - 01.12.1974, Blaðsíða 73
Helgimyndir og inyndbrjótar
Þeir eignuöust snemma Kristsmynd þá sem engin dauðleg hönd hafði
gjörða heldur var talin sköpun himnasmiðsins sjálfs. Ef til vill geta menn
ráðið í það, hversu mjótt er mundangshófið milli skurðgoðadýrkunar þeirr-
ar, sem var hinum fornu Hebreum andstyggð, og þeirrar tilbeiðslu á helgum
myndum af himni föllnum, sem nú fór eins og eldur í sinu um rómverska
ríkið, með því að hlýða lofsöng til einnar slíkrar myndar. Þar segir: „Hvern-
ig mega dauðleg augu vor meðtaka dýrð þessarar myndar, þegar herskarar
himnanna fá ekki litið dýrðarljóma hennar? Hann er býr á himni hefur á
þessum degi stigið niður til að vitja vor í þessari mynd. Hann er ríkir yfir
kerúbunum hefur í dag heimsótt oss í mynd þessari, sem gjörð er með ó-
flekkaðri hendi föðurins, og hann hefur dýrlega gjörða og vér tignum með
tilbeiðslu vorri, ótta og ást.“
Þannig var komið í lok 6. aldar. Hin forna skurðgoðadýrkun, sem spá-
menn Gamla testamentisins börðust hatrammlega gegn, hafði borið sigurorð
af frumkristilegu banni við skurðgoðadýrkun, hinar nýju myndir voru vafð-
ar hið ytra í kristilegan helgikufl, en fyrir allri alþýðu manna var hér hin
gamla dýrkun inyndarinnar upptekin. Palladium var hin fræga mynd kölluð
í Róm til forna, mynd af Pallas sem var annað nafn á Aþenu hjá Grikkjum
og Rómverjar töldu vera gyðjuna Minervu. Myndin var sögð hafa fallið af
himnum sem svar við bæn Ilusar stofnanda Trójuborgar. Og víst er um það,
að ekki fengu Grikkir unnið Tróju fyrr en þessari mynd, palladium, hafði
verið stolið af Díomedesi og hún borin úr borginni. Mynd þessi var síðar
tignuð og tilbeðin í Vestuhofi í Rómaborg. Og nú voru slíkar myndir í
hverri borg hins rómverska heimsveldis og öllum herbúðum keisarans. Hin
heiðnu goðmögn höfðu haft hamskipti, í stað heiðinna vætta voru komnir
kristnir dýrlingar og píslarvottar. Tilbeiðsluformið var hið sama og á dögum
Arons, menn þurftu eitthvað áþreifanlegt, ef ekki vildi betur til þá kálf af
gulli gjörðan. Og myndirnar voru yfirjarðneskar, ekki sköpunarverk dauð-
legra handa, heldur af himnum fallnar eins og palladium forðum. Þær
bjuggu yfir huldum verndarmætti, þær léttu af plágum og farsóttum, þær
stökktu herjum á flótta, þær glæddu von hinna vonarsnauðu, hersveitir fyllt-
ust sigurvissu þar sem slikar myndir voru bornar í herbúðir fyrir orustu.
Myndirnar unnu kraftaverk og þær tímguðust á yfirnáttúrlegan máta, gátu
af sér nýjar myndir, sem þá geymdu hinn dulda himneska mátt sem frum-
myndin hafði átt fyrir. Þannig var þetta fyrir sjónum alþýðu og enginn
skyldi ætla að hinir lærðu feður helgrar kirkju hafi hugsað mjög á aðra
lund eða vísvitandi vélt um fyrir fólkinu. Hjátrú þeirra var hrein og flekklaus
199