Tímarit Máls og menningar - 01.12.1974, Side 64
Tímarit Máls og menningar
15 og 20 nöfn og merki undir það, sem ég skrifaði. Margar pólitískar grein-
ar skrifaði ég undir nafninu Kvásir. Oft skrifaði ég líka undir stöfunum
I. J., en það gerði líka annar, Ingimar Jónsson.
—- Skrifaði Hendrik Ottóson undir nafni?
— Hendrik skrifaði venjulega undir nafni eða H. 0.
— Og Sigurður Jónasson?
— Hann skrifaði alltaf undir nafni.
— En Dýrleif?
— Hún skrifaði ákaflega lítið í blaðið. Hendrik og Sigurður skrifuðu
yfirleitt ekki mikið. Ég var sá, sem hélt þetta lengst út.
— Þú þýddir líka í blaðið?
— Ég þýddi oftast framhaldssögurnar, sem komu, en Stefán Pétursson
þýddi eina, sem hét Ævintýri. Ég þýddi Kol lconung eftir Upton Sinclair, og
ég þýddi Tarzan-sögurnar. Ólafur hafði haft með sér frá Englandi eina
Tarzan-söguna í vasanum. Þegar ég var búinn að lesa hana, kom okkur sam-
an um að setja hana í blaðið. Þá byrjaði ég að þýða hana. Ég hafði bókina
alltaf í vasanum og þýddi á hverjum degi það, sem koma þurfti í blaðinu.
Þegar ég var búinn að þýða 50 blaðsíður, þurfti ég ekki lengur að fletta upp
í orðabók. Höfundurinn var ekki orðfleiri en svo. Síðan hef ég tekið eftir
því, að maður er kominn inn í orðaforða höfundar að mestu leyti, þegar
maður er búinn að þýða nokkurn hluta af bók hans. Það var jafnvel svo um
Jack London, þótt hann sé orðfleiri höfundur en Edgar Rice Burroughs.
— Voru þetta ekki strangir dagar hjá ykkur Ólafi?
— Við gáfum okkur tíma til að setjast inn á kaffihús seinni hluta dags,
venjulega kaffihúsið í kjallara Nýja Bíó, sem Rosenberg rak. Þar rifumst við
um stjórnmál við unga og gamla, en sérstaklega þó við unga menn. Ólafur
var alltaf agitatoriskur.
— Og mikill fundarmaður?
— Hann var snjall „folketaler“, ákaflega „slagfærdig“ á opinberum fund-
um, fljótur til svara, þegar gripið var fram í fyrir honurn og setti ofan í
við þá, sem fram í tóku. Hann var áheyrilegur, skýr og skemmtilegur. En
mest áhrif hafði hann á menn með viðræðum sínum.
— Ólafur fór nokkrar ferðir til útlanda á þessum árum?
— Ólafur fór á annað þing 3. alþjóðasambandsins í Moskvu 1920 og
aftur 1921 á þriðja þing þess, þá með Ársæli Sigurðssyni. Auk þess mun
hann hafa verið þrjá mánuði í Bretlandi til að kynna sér verkalýðsmál þar-
lendis. I fjarveru hans sá ég um Alþýðublaðið, oftast einsamall.
190