Tímarit Máls og menningar - 01.12.1974, Page 86
Siglaugur Brynleifsson
Galdrar
Galdratrú og hagvöxtur
Margar ástæður voru fyrir galdraofsóknum, og ein þeirra var tengd mynd-
breytingu samfélagsins til borgaralegs þjóðskipulags. Efnahagsleg útþensla,
skyndileg fjármagnsmyndun og verðbólga einkenndi 16. og 17. öld í sögu
Evrópu. Peningaverzlun og peningavald var í uppgangi og það varð mörg-
um íhugunarefni. Voru ekki peningarnir frá hinum Vonda, samkvæmt mið-
aldaskoðun? Ókyrrðin innan samfélaganna jókst, bæði af trúarlegum og
efnahagslegum ástæðum. Og hver var sá, sem hafði mesta ástæðu til þess að
hlakka yfir vesöld mannanna, trúarbragðastyrjöldum og bændauppreisnum,
nema óvinurinn? Hann var frumkvöðull flærðanna og fégræðginnar.
En nú þurfti að réttlæta fjáröflunina, öðru nafni fégræðgina og það gerðu
Kalvín og Lúther. Öll nytsöm störf voru guði þóknanleg. Samvirkt og íheldið
samfélagsform miðalda molnar sundur fyrir útþenslu efnahagsundurs nýju
aldar, peningahagkerfinu, samkeppni og gagngerari nýtingu náttúruauðlinda
Evrópu og nýlendnanna.
Efnahagsástandið í Evrópu á 17. öld jók á forsendur galdraóttans. Megin-
hluti íbúa álfunnar bjó í sveitum, oftast riær í sveitaþorpum. Fólksfjölgunin
var mikil frá því um miðja 15. öld og fram til loka þeirrar 16. Meginhluta
17. aldar varð lítil fjölgun, en í lok aldarinnar tekur fólki að fjölga aftur.
Á þessu tímaskeiði átti sér stað stöðugt aðstreymi fólks í bæi og borgir utan
af landsbyggðinni. Aukin verzlun og iðnaður í borgum dró að sér fólk. Af-
komumöguleikar voru skárri i bæjum en í sveitum. Jarðirnar voru víðast
hvar að mestu leyti í eigu aðals, krúnu eða kirkju. Aukinn markaður jók á
einhæfni í landbúnaði, áherzla var lögð á að stunda þá tegund landbúnaðar-
framleiðslu, sem gaf mestan arð. Jarðeigendur reyndu að gera eignir sínar
sem arðbærastar, en sú stefna þrengdi hag þeirra sem á þeim unnu. Vöruverð
hækkaði en kaup hækkaði ekki að sama skapi. Með siðaskiptunum hófst nýr
hugsanamáti og siðgæðismat í kaupsýslu og atvinnurekstri. Gjörnýtingin
hófst til öndvegis. Peningamatið sigraðist á lénskum hugsunarhætti miðalda.
212