Skírnir - 01.01.1963, Qupperneq 158
146
Sveinn Einarsson
Skírnir
og milljónir (John Glayde’s Honour) eftir Alfred Surro er
keyptur til Leikfélagsins undir nafninu „John Glaydes Ære“?
Hann þarf þar fyrir ekki að hafa verið þýddur á íslenzku af
öðru máli en frummálinu, en hafi hins vegar sýningin í Dan-
mörku orðið til þess að vekja á honum athygli, má kannski
tala um óbein áhrif.
En hvað sem þessum atriðum líður, virðist þó óhætt að segja,
þegar á heildina er litið, að leikritaval leikhúsanna í Kaup-
mannahöfn um aldamótin hafi áhrif á leikritaval í Reykja-
vík á sama tíma, og þetta á ekki eingöngu við um dönsk leik-
rit. Svo bent sé á enn eitt atriði, sem snertir þetta mál, má
geta þess, að Leikfélag Reykjavíkur var áskrifandi að danska
tímaritinu Teatret 1902—3, en þess er hvergi getið í reikn-
ingum félagsins, að það hafi sinnt öðrum tímaritum.
Hér hefur nær eingöngu verið rætt um leikritaval Leik-
félags Reykjavíkur. Ástæðan er sú, að félagið var í farar-
broddi og önnur leikfélög fylgdu fordæminu og fóru sjaldan
eigin leiðir. Nokkrar undantekningar eru þó frá þessu, sem
kunnugt er um, einkum á Akureyri og Hafnarfirði. Merk-
astar frá leikritavalssjónarmiði verður að telja þar sýningar
á íslenzkum leikritum, sem Leikfélag Reykjavikur tók ekki
til meðferðar, verk eftir séra Matthías og Pál J. Árdal á Akur
eyri og eftir Þorstein Egilson í Hafnarfirði. 1 Reykjavík er
forysta Leikfélagsins svo augljós af afstöðu blaðanna, að varla
koma aðrir leikflokkar til álita um listræna getu. En að því
er virðist ekki heldur um leikritaval, þar gaf L.R. tóninn. Eina
undantekningin, sem verulegu máli skiptir, eru sýningar Stú-
dentafélagsins á Alt Heidelberg sumarið 1904. Reyndar er
það ekki valið sjálft, sem til nýmæla má teljast, heldur það,
að pöntuð voru frá leiktjaldaverkstæði Carls Lunds í Kaup-
mannahöfn heil leiktjöld með Neckar-landslagi. Leikfélagið
gerði þessa hugmynd að sinni og pantaði svo til árlega leik-
tjöld frá Höfn næstu leikárin. En varla verður komizt hjá því
að tala um dönsk áhrif eftir sem áður.
Var þá ekkert, sem gat vegið upp á móti því? Vissulega er
oft erfitt að greina á milli hins danskættaða og hins í verk-
efnavalinu, en bersýnlega heldur þó Kaupmannahöfn áfram