Skírnir - 01.04.2000, Blaðsíða 16
10
B ALDUR JÓNSSON
SKÍRNIR
ársbyrjun 1951. Þá var hann kominn suður, fyrst í rannsóknar-
leyfi, og gat þá m.a. nýtt sér söfn Orðabókar Háskólans, sem tek-
in var til starfa fyrir nokkrum árum. Þau söfn voru að vísu fátæk-
leg miðað við það sem nú er orðið, en Halldór er fyrsti fræði-
maðurinn sem færði sér þau í nyt svo að um munaði.
I Islenzkum orötökum eru tekin til meðferðar um 830 orðtök,
öll myndhverf, og þau flokkuð og skýrð. Sem dæmi um mynd-
hverft orðtak má nefna að leggja árar í bát sem merkir ‘að gefast
upp’, en ekki bókstaflega ‘að leggja frá sér árar í bát’. Þarna hafa
orðið myndhvörf. Aður var engan veginn ljóst hvaða munur var
gerður á orðtaki, orðtæki, orðatiltæki, talshætti, máltaki og mál-
tæki. Halldór varð að skilgreina hugtakið „orðtak“ og velja því
þetta heiti. Enn fremur varð hann að skilgreina og útskýra mörg
hugtök úr merkingarfræði sem áður voru lítt kunn hér á landi og
finna þeim íslensk heiti. Það hafði hann raunar gert áður, en nú
komu þau í góðar þarfir, t.d. orðin myndhvörf (metaphor) og
myndhverfur (metaphorical). Áður hafði íslenskum orðtökum
ekki verið gefinn mikill gaumur, og ekkert yfirlit var til í líkingu
við það sem hér var birt. Hér er því um grundvallarrit að ræða.
Halldór hélt áfram rannsóknum á íslenskum orðtökum, bæði
myndhverfum og öðrum, og gaf síðar út mun stærra safn sem
hann nefndi Islenzkt orðtakasafn. Það kom fyrst út í tveimur
bindum 1968-1969, síðast í 3. útgáfu, aukinni og endurskoðaðri
1991, og var Halldór þá orðinn áttræður.
Skyldar þessu eru auðvitað rannsóknir á einstökum orðum og
sögu þeirra. Um það efni ritaði Halldór fjölda ritgerða sem birtar
voru í bókum og tímaritum. Tvisvar tók hann saman nokkuð af
því efni og gaf út sérstaklega sem alþýðleg fræðirit, Örlög orð-
anna (1958) og Ævisögur orða (1986). I seinna ritinu, sem kom út
þegar Halldór var hálfáttræður, segir hann í formála um athugan-
ir sínar á ýmsum atriðum, sem varða íslenskan orðaforða, að sá
þáttur málvísinda hafi ávallt setið í fyrirrúmi hjá sér. Enn fremur
segir þar m.a. (bls. 9): „Ég hefi alltaf talið, að hlutverk fræði-
manna sé ekki það eitt að skrifast á í tímaritum og nota við það
mál og stíl, sem venjulegur lesandi hefir hvorki skilning á né gam-
an af. Hlutverk fræðimanna er einnig að ná til almennings. Ekki á
þetta sízt við um þá, sem fást við þjóðleg fræði.“ I samræmi við