Skírnir - 01.04.2000, Blaðsíða 174
168
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
SKÍRNIR
þau laði til sín fólk og fjármagn og valdi einhverjum aðlögunar-
vanda í öðrum atvinnugreinum?30
Stjórnmálarök fyrir veiðigjaldi
Þrátt fyrir þessi rök öll, hagfræðileg, lagaleg og siðfræðileg, verð-
ur veiðigjaldssinnum ekki svarafátt. Þeir segja, að skeggræður og
skraf fræðimanna skipti minna máli en sú beinharða staðreynd,
að í lýðræðisríki eins og hinu íslenska muni þjóðin aldrei sætta
sig við ókeypis úthlutun nýtingarréttinda á mikilvægum náttúru-
gæðum til fámenns hóps manna. Veiðigjaldið sé ef til vill ekki
nauðsynlegt til að tryggja hagkvæmni í fiskveiðum, fullnægja
settum lögum eða koma í veg fyrir ranglæti, eins og hér hefur
verið nefnt. En það sé nauðsynlegt til að tryggja sæmilegan frið
með þjóðinni um skipulag fiskveiða. Utgerðarmenn verði blátt
áfram að kaupa slíkan frið þessu verði. En á þessum stjórn-
málarökum fyrir veiðigjaldi er sá stóri galli, að þeim má snúa við
og gera að rökum fyrir þveröfugri skoðun. Við getum tekið undir
þá forsendu, að tryggja varð sæmilegan frið um skipulag fisk-
veiða, en dregið allt aðra ályktun en veiðigjaldssinnar gera: End-
urgjaldslaus úthlutun kvótanna í upphafi til þeirra, sem gert
höfðu fiskveiðar að ævistarfi sínu, var einmitt eina leiðin til þess
að tryggja sæmilegan frið um málið. Rifjum upp vandann. Hann
var, að sextán bátar voru að veiða afla, sem átta bátar gátu hæg-
lega veitt. Verkefnið var tvíþætt, að fækka bátunum úr sextán í
átta og sjá síðan um, að þeim fjölgaði ekki aftur. Þetta var unnt að
gera á tvo vegu, en hvort tveggja fól í sér lokun fiskimiðanna. I
fyrsta lagi mátti selja aðgang að fiskimiðunum og hafa aðgangs-
30 Ekki er mörgum orðum eyðandi að röksemd, sem komið hefur fram í umræð-
um íslenskra hagfræðinga um svonefnda „hollenska veiki“ (sjá t. d. Þorvald
Gylfason, „Hollenska veikin“ í Siðustu forvöð, 30-34): Skyndilegur fundur
jarðgass í landhelgi Hollands hafði í för með sér stórauknar gjaldeyristekjur
og knúði fram gengishækkun hollensks gyllinis, sem olli síðan öðrum útflutn-
ingsgreinum búsifjum. Þessu er líkt við gjaldeyristekjur íslendinga af fiskveið-
um. En í Hollandi var um að ræða tímabundinn aðlögunarvanda. Á íslandi
hafa hins vegar langmestar gjaldeyristekjur skapast af fiskveiðum um langan
aldur, og verður svo um fyrirsjáanlega framtíð. Sjávarútvegur veldur vitanlega
ekki neinum stórkostlegum og varanlegum vandræðum með því að vera
langarðvænlegasti atvinnuvegurinn!