Skírnir - 01.04.2000, Blaðsíða 196
190
TERRY GUNNELL
SKlRNIR
(allt er séð með þeirra augum), hins vegar búa þursarnir á „fjarlægu, en
þó ekki óyfirstíganlega fjarlægu, landsvæði einhvers staðar í austrinu"
(52)’ ,
Þrátt fyrir yfirlýst markmið sitt að forðast tvíhliða andstæður, gengst
Clunies Ross við því síðar í bókinni að flestar norrænar goðsagnir bygg-
ist upp á átökum guða og jötna. Hún dýpkar hins vegar þessar andstæð-
ur: hinir fornu, sterku og hyggnu jötnar eru taldir endurspegla náttúru-
öflin og þar með einnig hið kvenlega (sjá Ortner 1974), en það er talið
fela í sér aðgerðaleysi og íhaldssemi, náttúrlega sköpun og náttúrlegan
dauða (og þar með bæði tímann og forlögin). I augum guðanna (sem eru
helsti sjónarhóll okkar) eru þetta einkenni ákveðinnar óreiðu sem þarfn-
ast karllegrar stjórnunar. Hinir skynsömu, klóku og skapandi guðir eru
þannig fulltrúar karllegra gilda menningarinnar sem mynduð er úr hrá-
efnum náttúrunnar, reglufestu, eilífs andlegs lífs og athafnasemi. Ein-
hvers staðar þarna á milli eru dvergar, álfar og vanir, en slík flokkun er
óþrjótandi uppspretta vandamála vilji menn fara þessa túlkunarleið.
Næst flokkar og rannsakar Clunies Ross þau margvíslegu samskipti
sem eiga sér stað milli þessara hópa í einstökum goðsögnum (og þar með
hugtök sem þau standa fyrir), og þau ráð sem brugðið er á til að tryggja
yfirburði eins hópsins yfir öðrum. Áhersla er lögð á oft og tíðum óheið-
arlegar aðferðir guðanna við að viðhalda félagslegu stigveldi í beinan
karllegg, þar sem æsir vinna þrotlaust að því að halda lægri stéttunum,
vönum og jötnum, undirgefnum. Eins og Clunies Ross bendir á (88-93
og 102) endurspeglar þetta félagsleg viðhorf og framkomu ráðandi afla
gagnvart hinum lægra settu á Islandi þrettándu aldar.
Undir fyrirsögninni „Neikvæð gagnverkun“ („Negative reciprocity",
sem tengt er hugmyndum Sahlins 1965) fjallar Clunies Ross um þær
goðsagnir sem snúast um samskipti miðjunnar (þar sem guðirnir búa) og
útjaðranna (þar sem jötnarnir búa). Fyrstu gerð goðsagna af þessu tagi
finnum við í Þrymskviðu og Alvíssmálum, í lýsingu Snorra á viðureign
Þórs og Hrungnis, frelsun Iðunnar frá Þjaza, og leit Skaða að friðþæg-
ingu eftir dauða Þjaza. Allar lýsa þær tilraunum jötnanna til að komast
yfir eitthvað sem er í eigu guðanna (venjulega kvenkyns veru úr hópi
þeirra, t.d. Freyju, Þrúði eða Iðunni). Þess háttar athafnir eru augljóslega
álitnar óréttmætar og eru því nánast alltaf dæmdar til að mistakast
(75-76). Hins vegar er það tekið gott og gilt þegar guðirnir fara til heim-
kynna jötnanna til að endurheimta ýmsan „varning“, drepa jötna (sem
aðferð til þess hafa stjórn á fólksfjölda: 103 og 105), samrekkja jötna-
meyjum og/eða komast yfir ýmiss konar auð sem þær hafa aðgang að
(100), eða einfaldlega til að auka þekkingu sína. Guðirnir þurfa óneitan-
lega að komast af, og hinum stolna náttúruauð er ávallt breytt í „menn-
ingarafurðir“.
Þetta hegðunarmynstur endurspeglar greinilega þörf guðanna til að
viðhalda stöðu sinni í öðrum „þremur meginflokkum ímyndaðra vera“