Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 14
SKAGFIRÐINGABÓK
verður það allmikil bygging og reisuleg, kjallari og tvær hæðir. Standa
að þeim framkvæmdum Skagafjarðarsýsla og Sauðárkróksbær. Húsið
er nú fokhelt, en fjárþröng í bili hefur tafið framkvæmdir þær, sem
fyrirhugaðar eru.
Byggingu þessari er ætlað að verða miðstöð skagfirzkra fræða, út-
gáfustarfsemi Sögufélagsins og rannsókna í því sambandi. Með það
fyrir augum er nokkurt kapp lagt á að afla söfnunum, sem hér um
ræðir, eins fuilkominna tækja og kostur er á til áframhaldandi öflunar
heimildargagna. Þannig var á þessu ári fengin til safnsins ný og mjög
fullkomin ljósritunarvél, sem ætlað er að Ijósrita þær skagfirzkar
kirkjubækur, sem eru hjá sóknarprestum, en þeim skylt samkvæmt
lögum að skila til Þjóðskjalasafnsins, auk ýmissa annarra gagna, er hafa
að geyma verðmætan fróðleik, sem illt er, að fluttur sé burt úr
héraðinu. Fjár til þessa verður aflað með samskotum hjá skagfirzkum
áhugamönnum.
Loks hefur komið til orða, að stjórnir Héraðsskjalasafnsins og
Sögufélagsins gangist fyrir því, er safnahúsið er komið lengra áleiðis,
að halda þar árlega stutt námskeið til að leiðbeina þeim, yngri og eldri,
er áhuga hafa á fræðistörfum, um beztu leiðirnar við notkun almennra
manntala, kirkjubóka, handbóka og annarra fræðirita.
Hér hefur stuttlega verið vakin athygli á, hvað gert hefur verið
hér í Skagafirði síðustu 30 árin til eflingar vissum menningarmálum.
Vænti ég, að Skagfirðingum verði Ijóst, að hér er ekki um kyrrstöðu
að ræða, heldur áframhaldandi starf til varðveizlu þeirra menningar-
verðmæta og arfleifðar, sem okkur er nákomnust.
Jón Sigurðsson.
12