Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 107
FJÁRSKAÐI í ÖLDUHRYGG
fennt í Nautalág, sem áður er nefnd. Sjálfboðaliðar frá nærliggjandi
bæjum veittu fúslega aðstoð sína í Ölduhrygg. Einar Jóhannesson.
síðar bóndi í Breiðargerði, vakti yfir kindunum og hjúkraði þeim af
mikilli nærgætni. Einar var smiður af guðs náð og átti mjúkar hendur
við fleira. Þeir Gilhagabræður, einkum þeir Þorsteinn og Indriði, unnu
mikið að því að leita í fönninni. Mikið var leitað í Nautaláginni, og
eftir þrjár vikur fannst ein ær alveg nýdauð. Hún hafði brætt frá sér
og náð til jarðar. Þá var hætt að leita.
Þess er áður getið, að gamli hundurinn Hringur hvarf frá Stefáni,
þegar hríðin skall á. Ekki náði hann til bæjar, en kom heim illa
haldinn eftir hríðina, og sáust harðspor eftir hann alllangt fyrir framan
Ölduhrygg. Hrossin voru hýst í Grundarhúsinu. Þau höfðu hörfað
undan veðrinu nokkuð suður fyrir túnið, en sakaði ekki. Á hvítasunnu-
dag fannst ein ær í hvamminum fyrir sunnan og ofan túnið, og þótti
líklegt, að hún hefði verið hjá sauðnum uppi á melnum fyrir utan, en
hrakizt frá honum suður í hvamminn. Einum eða tveim dögum síðar
fundust hinar ærnar, 17 að tölu, í Nautaláginni. Þær voru allar í einni
kös, og þótti sýnt, að þær hefðu hrapað fram af hengju. Þess sáust
merki, að ein eða tvær hefðu lifað lengi og étið alla grasrót, þar sem
þær voru. Af rúmum 80 kindum, er settar voru á vetur, lifðu eftir 44.
Með einhverjum hætti hefur forustusauðurinn komizt fram hjá
Nautaláginni, þessari illvígu gildru, sem er aðeins 7 mínútna gang
frá bænum í Ölduhrygg, og það orðið honum til lífs. Hann mun hafa
verið vitur skepna, og áður hafði hann öðlazt bitra reynslu. Nokkru
eftir krossmessuhríðina vorið 1906 vantaði sauðinn í Ölduhrygg og
tvær ær með honum. Kindurnar fundust ekki, og var álitið - og sáust
jafnvel merki til - að þær hefðu farið ofan í snjóhuldu á Goðdala^ils-
læk, sem fellur í Svartá nokkuð fyrir framan Ölduhrygg. Lækur þessi
fellur í miklum bratta og getur verið vatnsmikill í leysingum. Nokkru
síðar fundust ærnar reknar úr ánni, en ekkert spurðist til sauðsins
allt vorið. Þegar smalað var til rúnings, var margt fé utan úr sveit
komið fram í Svartárdalinn að austan. Óskilaféð var rekið út sveit-
ina, en hvergi rekið inn og kannað. Hver bóndi gekk sínar kindur úr
um leið og reksturinn fór hjá. Þegar óskilaféð kom út að Brúnastöðum,
leit Jóhann hreppstjóri yfir hópinn og mælti: „Þarna ætla þeir að gefa
105