Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 190
SKAGFIRÐINGABÓK
Bók Sigurbjörns geymir hvortveggja visur og kvæði. Flest eru kvæðin tæki-
færisbundin, og fer mest fyrir kveðjum til vina, lífs og liðinna. Stökur eru all-
margar, en tildrög fylgja þeim lítt sem ekki. Raunar stendur vísa undir sér, þó
ort hafi verið af ákveðnu tilefni, hefji efnismeðferðin hana yfir stund og stað.
En iðulega dýpkar þó vísa við tildrögin, og vísa ásamt tildrögum, séu þau vel
stíluð, er sjálfstætt listform, tildrögin mynda aðdraganda, sem öðlast ris í vís-
unni, jafnframt því sem hún slær botn í frásögnina, stutt og laggott.
Kveðskapur Sigurbjörns K. Stefánssonar er lipur og aðlaðandi, örsjaldan
barningur til lýta, en samþjöppun aftur varla næg alls staðar. Hér og hvar
glitrar á skáldlega hugsun, hvergi að vísu samfara óvæntum efnistökum, en
umvafða mannlegri hlýju og Ijóðrænni kennd. Sömuleiðis opnar höfundur
stundum leynidyr huga síns, hávaðalaust og án sýndarmennsku, og þá gefst
lesandanum sýn inn í lítið eitt sviðasára lund, sem þó hefur hvergi gert ljóð
hans, í þessari bók að minnsta kosti, galli blandin.
Meginstef Sigurbjörns er ást hans á Skagafirði og æskustöðvum, vísnagerð
og kvæðasöng. Ollu þessu játar hann hollustu sína margsinnis í bókinni. Tregi
þess manns, sem lengi fer slóðir fjarri bernskuhögum, litar þær vísur hans og
Ijóð, sem þangað er stefnt, og verður þetta ekki sízt skiljanlegt fyrir þá sök, að
nú hefur lagzt í eyði sá bær, sem fóstraði hann ungan:
Þögull erfir eyðibær
unglings gengnu sporin.
1 tröðinni heim að Gerðum grær
grasið í friði á vorin.
Og á öðrum stað kveður Sigurbjörn:
Sjálfur veit ég vel og finn,
í verkum dags og ljóðum
starfar hálfur hugur minn
heima á æskuslóðum.
Og enn kveður hann:
Ástir braga, ættarmót,
öll mín fagurvirði,
yndi, saga og óðarrót,
- allt úr Skagafirði.
Eftirfarandi vísu má hins vegar taka sem dæmi um tryggð Sigurbjörns við
vísnagerð og kvæðasöng:
188