Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 64
SKAGFIRÐINGABÓK
er í sögunni um Svein hér á undan.* Kona Jóns var Herdís Halls-
dóttir (og Ingunnar dóttur Galdra-Geira), og ólst Soffía upp með
þeim, til þess er hún giftist.
Það var eitt sinn, er Soffía var enn barn að aldri, eitthvað 6-7 ára
gömul, að Jón, sem var sjósóknari mikill, hafði farið í hákarlalegu.
Þegar hann kom úr legunni, fór allt fullorðið fólk niður í Jarðfall
að hjálpa til að setja skipið, en Soffía og nokkur börn önnur voru
heima. Tók Herdís þeim vara fyrir að fara ekkert út, en leika sér inni
í baðstofunni og að hafa engan hávaða eða læti. Það fór nú eins og
gengur, að þau léku sér með nokkurum ærslum og höfðu hátt. Allt
í einu heyrðu þau, að gengið var framan göngin, og kemur Herdís inn
í baðstofuna og staðnæmist í dyrunum. Hvessir hún augun á börnin
og er reiðileg og segir: „Engin læti, börn," Þeim varð hverft við og
hættu hávaðanum, en Herdís virtist þeim ganga fram. Nú leið nokkur
stund, og kemur þá fólkið heim og Herdís með því, en Soffíu og hin
börnin furðar mjög á því, að hún hafi getað haft tíma til að fara
niður í Jarðfall, frá því hún gekk út úr baðstofunni, og spyr Soffía
hana, hvort hún hafi farið niður eftir, eftir að hún hafi hastað á
þau áðan. Herdís segir henni þá, að hún hafi alls ekki komið heim fyrr
en í þessu, heldur hafi hún verið niðri frá allan tímann. Var talsvert
um þetta rætt, og hélt Herdís því fastlega fram, að það hefði verið
huldukona, sem börnin sáu, og kvaðst hún oftar hafa orðið hennar vör,
og að henni líkaði ekki ærsl barnanna né heldur fullorðinna.
Sögn þessa sagði Soffía á efri árum sínum Ástu Jóhannesdóttur,
tengdadóttur sinni, en hún sagði mér. Var Soffía hin merkasta kona
og réttorð mjög. Einnig sagði Soffía Ásm frá því, að er hún var
orðin gjafvaxta, hefði hún oft séð einn veturinn ungan mann, sem
leitaði eftir ástum hennar. Engir sáu hann aðrir á heimilinu en hún,
og um aðkomumann gat ekki verið að ræða. Soffía var þá trúlofuð
Kristni, er hún giftist síðar.
Reimleikar þótm vera í Málmey á uppvaxtarárum mínum. - 8.
nóvember 1879 fórust fjórir fiskibátar af Skaga í afspyrnu vestanroki,
* Jón bjó í Málmey 1835-47-
62