Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 61
NOKKRAR SAGNIR ÚR MÁLMEY
eftir JÓN JÓHANNESSON
SuÐURENDi Málmeyjar heitir Kringla. Var hún áður tengd
eynni með mjóu eiði, en úr því hrundi stöðugt báðum megin, en hátt
berg í fjöru niður beggja vegna, svo að hverjum var bani búinn, sem
hrapað hefði þar niður, Sjálf var Kringlan grasi vaxin, en eiðið var
um 1890 orðið gróðurlaus melhryggur og svo mjótt sem saumhögg
væri. Á bernskuárum þess, er þetta ritar, kom það á stundum fyrir,
að kvíaær runnu suður á Kringluna. Oftast komu þær sjálfar til baka,
en þó kom það fyrir, að þær staðnæmdust þar.
Það man ég síðast til, að farið væri suður á Kringlu, að Jón Guð-
varðarson (f. 7/11 1860, sbr. Ættir Skagfirðinga, nr. 463), sem þá
var vinnumaður í Málmey hjá Einari Ásgrímssyni,* sótti ær suður
á Kringlu, sem búnar voru að vera þar nokkra daga. Fór hann yfir
eiðið þannig, að hann mjakaði sér eftir því klofvega, þar sem það var
mjóst, gekk svo fyrir ærnar, en þær runnu sjálfar yfir mjóddinjt eins
og ekkert væri, en Jón fór til baka á sama hátt og hann hafði farið
suður yfir og farnaðist vel. Þetta haft var nefnt Kringluskarð. í jará-
skjálfrunum 1896** hrundi mikið úr berginu, sem er mjög laust í sér,
* Einar bjó í Málmey 1886-92.
** Fyrr á öldinni höfðu orðið jarðskjálftar miklir á Skagafirði. Nóttina milli
11. og 12. júní 1838 hrundu björg „mjög í Málmey og Drangey, og var þar
allhræðilegt og ósýnt um, hvort menn héldu þar lífi eður ei, þeir er fram á
fjöru voru." (Saga frá Skagfirðingum).
59