Skagfirðingabók - 01.01.1967, Qupperneq 96
SKAGFIRÐINGABÓK
Á efsta toppi hæsta hólsins á Ketubjörgum er vel byggð og æva forn
grjótvarða, sem vel gæti verið frá landnámstíð, því mjög er hún grasi
gróin og allstór um sig. Gæti hún ekki hafa verið merkjavarða, sem
hefði aðskilið landnám þeirra Eilífs og Mána? Það eitt er víst, að
ekki er hún merkjavarða milli Ketu og Kleifar, því merki þeirra
jarða eru við lækinn fyrir innan björgin.
Á allri austurströnd Skagans, utan frá Skagatá og inn í Laxárvík, er
hvergi neitt verulega greinilegt kennileiti, sem gæti hafa aðgreint
landnám Eilífs og Mána, svo að ekki yrði um villzt, nema hæsti hóll-
inn á austurbrún Ketubjarga. Það er því ekki um að villast, að sá hóll
er hin forna Mánaþúfa.
Á þjóðveldistímanum er líklegt, að mörk goðorða hafi einmitt verið
við Mánaþúfu og að menn fyrir norðan hana hafi átt hofssókn að
Hofi á Skagaströnd. Allar gerðir Landnámabókar segja, að Þjóðólfur
goði, sonur Eilífs arnar, hafi búið að Hofi á Skagaströnd. Enn í dag
skiptast kirkjusóknir um Ketubjörg, þannig að Hvammssókn nær
þangað út, en Keta er innsti bær í Ketusókn. Þannig var það einnig
árið 1713, þegar jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vída-
líns var samin.
Ekki hef ég séð í heimildum, að Atli hinn rammi, son Eilífs arnar,
hafi haft goðorð, en varla hefði slíkur höfðingi sem Guðmundur ríki
á Möðruvöllum var gifzt dóttur Atla, ef hann hefði ekki haft goðorð,
því að hjónabönd voru þá oftast stofnuð á allt öðrum grundvelli en
nú gerist. Það var því mjög sennilegt, að Atli hafi haft goðorð um
landnám föður síns, því varla hefði hann fengið Herdísi dóttur Höfða-
Þórðar fyrir konu, ef hann hefði ekki haft mannaforráð. Hefði þá
Mánaþúfa verið merki á milli goðorða þeirra bræðra.
Sem fyrr er sagt, getur hinn svonefndi Mánahaugur alls ekki verið
sama og Mánaþúfa, því að bæði er hann langt inni í heiði og þá hefði
bær Mána verið alveg í útjaðri á landnámi hans, eins og próf. Ólafur
Lárusson tekur réttilega fram. Nafnið á Mánahaug mun líka vera
fremur ungt, líklega ekki eldra en frá 18. öld. Hinn svonefndi Mána-
haugur er líka enginn „haugur" í venjulegri merkingu þess orðs,
heldur er hann einkennilega strýmlagaður grjóthóll, sem ísaldarjökull-
inn hefur á sínum tíma skilið þarna eftir á áberandi stað.
94