Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 65
NOKKRAR SAGNIR ÚR MÁLMEY
og eitthvað af þeim hefur eflaust farizt við Málmey eða nálægt henni,
því brak úr bátunum rak þar.* Þá bjuggu í Málmey þeir Baldvin Bald-
vinsson, sem fyrr er getið, og Sölvi Sigurðsson, sem bjó í Lónkoti.
Eitthvað af fjalarusli þessu úr bátunum og einnig brot af siglutré
eins þeirra var borið heim og sett þar inn í heyhlöðu, sem þeir notuðu
báðir bændurnir. Var skilrúm úr fjölum, sem skipti hlöðunni á milli
þeirra. Hafði verið neglt eitthvað af fjölum þessum, sem talið var,
að væru úr Skagabátunum, í þetta skilrúm. Þaðan úr hlöðunni heyrðust
oft á kvöldum skrölt og skellir, eins og verið væri að henda til trjá-
viðarruslinu. Eins bar á þessu á morgnana fyrir dögun, er verið var
í hlöðunni. Þar heyrðist líka oft mannamál, og eins og þeir væru ekki
á eitt sáttir, er þar töluðust við. Var leitt getum að því, að sitt hefði
sýnzt hverjum þeirra skipverja, er þeir fórust. Jónas Ásgrímsson,
bróðursonur Jóns prófasts Hallssonar, var vinnumaður í Málmey, er
þetta var. Eitt sinn, er Jónas var í'hlöðunni að taka hey, kvað einna
mest að þessu í nokkur skipti. Jónas tók þá eftir því, að lítið austur-
trog, sem rekið hafði, var í þeim endanum, sem hann var í. Tók hann
það og kastaði því yfir skilrúmið, og tók þegar fyrir hávaðann.
* Frá sjóslysum þessum segir Ludv. R. Kemp allrækilega í bók sinni, Sögnum
um slysfarir í Skefilsstaðahreppi 1800-1950. Voru bátarnir, sem fórust, aðeins
tveir, en aðrir þrír björguðust „eftir mikla hrakninga." Týndu þarna lífi sínu
ellefu menn af austanverðum Skaga.
63