Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 117
FJALLIÐ MITT
dagsbrún, sem var oft svo lengi að verða að degi. En loksins komst hún
alla leið upp fyrir Glóðafeyki, og þá var dagur á lofti.
A skafheiðríkum júlídegi fyrir rúmum 50 árum stóð ég svo allt
í einu á tindi Glóðafeykis, ásamt nokkrum jafnöldrum mínum og
vinum. Loksins var þá komið að því, að ég fengi svarað hinni áleitnu
spurningu bernsku minnar: Hvað er á bak við fjallið?
Og nú blasti við augum, næst fjallinu að austan, dálítið mosavaxið
drag, sem heitir Húsgilsdrag, en lengra, og svo langt sem augað eygir,
tóku við fjöll og aftur fjöll. Sú þjóðsaga er til um þetta drag, að þar
hafi Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns biskups Arasonar, hafzt
við, ásamt sonardóttur sinni einni, meðan Danir dvöldu hér við land
eftir aftöku Jóns biskups. Atti hún að hafa dvalið þarna nokkurn
tíma í gráu vaðmálstjaldi. En þaðan er ekki mjög langt til Hóla. Var
þetta hinn ágætasti felustaður. Ekki er sagan samt trúleg.
Það þarf ekki að taka það fram, að útsýnið af fjallinu er forkunnar
fagurt og tilkomumikið, og verður mér ógleymanlegt. Eg tel þessa
fjallgöngu einn hinn merkasta viðburð æsku minnar.
Uppi á tindinum ríkti hin ósnorta náttúra, gædd hljóðlátum töfrum,
sem orkar með dularfullum krafti á mannshugann. Hér er maðurinn
kominn í annan heim, frjáls og öllum óháður. Fyrir neðan ólgaði
lífið, og þar réðust örlögin. Þar var farvegur sögunnar, sem um ó-
munatíð hafði streymt áfram eins og elfur. Það var einkennilegt að
hugsa til þess, að fjallið hafði verið áhorfandi að viðburðum sögunnar
um aldaraðir í þessari sögufrægu sveit. Það hafði séð til fetða Hjálm-
ólfs landnámsmanns, sem nam Blönduhlíð alla, þótt annars fari ekki
af honum miklar sögur. Það hafði verið áhorfandi að Haugsnesbardaga
og Flugumýrarbrennu. Það hafði fylgzt með þeim blóðuga kafla í
sögu héraðsins, sem dapurlegastur hefur verið allra kapítula í þeirri
sögu. En fjallið er þögult - bergmál Smrlungaaldarinnar er löngu
dáið út. Og fjallið þekkir engan tíma - Urður, Verðandi og Skuld
eru aðeins brot af þeirri eilífð, sem fjallið baðar sig í um ár og aldir.
Þegar ég lagðist til hvíldar um kvöldið, þreyttur en sæll, hugleiddi
ég viðburði dagsins. Mér kom það nokkuð á óvart, að ég fann ekki
til verulegrar gleði yfir að hafa sigrað fjallið. Ég hafði þó fengið að
vita, hvað hinu megin bjó. Var það ekki ærið gleðiefni, svo mjög sem
115