Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 144
SKAGFIRÐINGABÓK
Var nú Elín frá Skottastöðum borin til bæjar og henni hjúkrað, eftir
því sem föng voru á. Hresstist hún brátt við.
Nokkuð teygðist úr dvöl Elínar hjá þessu ágæta fólki, því að þau
felldu hugi saman, hún og Gísli, sonur þeirra hjóna. Giftust þau og
hófu búskap á Nautabúi, en fluttu þaðan að Teigakoti og bjuggu þar
um 40 ára skeið.
Sonur þeirra Teigakotshjóna var Jón, sem bjó á Strjúgsá í Eyjafirði
hátt á fimmta tug ára. Hann naut mikils álits hjá sveitungum sínum.
Var hreppstjóri um skeið, en gazt ekki að starfinu og sagði því af
sér eftir nokkur ár. Jón Gíslason var talinn hægur í framkomu, óá-
deilinn og vinsæll, dulur í skapi, djúphygginn og öðru vísi en fólk er
flest. Kona Jóns á Strjúgsá var Guðrún Jóhannesdóttir, bónda í Yzta-
gerði, ívarssonar.
Þau Strjúgsárhjón áttu saman fjögur börn, sem náðu fullorðins aldri,
og elztur var Jón sá, er þáttur þessi á að fjalla um. Hin voru: Ingibjörg,
sem giftist Páli, bónda í Æsustaðagerði, Einar, bóndi í Rauðhúsum, og
Ari, bóndi í Víðigerði og Þverá í Öngulsstaðahreppi. Þá átti Jón Gísla-
son son með Jóhönnu, systur konu sinnar. Hét hann Jóhannes og varð
fulltíða maður.*
Jón á Gilsbakka fæddist á Strjúgsá 25. apríl 1828 og ólst upp með
foreldrum sínum. Litlar sagnir eru frá bernskuárum hans, sem vonlegt
er. Þó urðu einstök atvik honum minnistæð, eins og títt er hjá börnum.
Þegar hann var enn á óvita aldri, var á heimilinu gömul kona illa
haldin af brjóstveiki. Kvartaði hún oft um, að enginn strompur væri á
baðstofunni og loft þungt þar inni, en hún var víst rúmliggjandi. Jóni
þótti vænt um konu þessa og vildi gera sitt bezta. Setur rögg á sig og
hleður hrauk úr smásteinum á þekjunni yfir rúmi hennar og taldi sig
þar með hafa gert stromp, þó að þekjan væri órofin sem áður. En nú
varð tilviljunin honum hliðholl, því að um það bil, sem hraukurinn
var fullgerður, þá hrundi hann, lenti á skjá yfir rúmi konunnar, stein-
* Þeim, sem vildu vita meira um foreldra og önnur náin skyldmenni Jóns
á Gilsbakka, skal bent á bókina, „Ég man þá tíð", endurminningar Steingríms
Arasonar, og greinina, „Hreppstjórinn á Strjúgsá" eftir Hólmgeir Þorsteinsson
í „Heima er bezt", nr. 9, 1965.
142