Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 20
SKAGFIRÐINGABÓK
sýnishorn af mörgum öðrum hliðstæðum. Trúðu margir því, að Jón
sæi feigð á mönnum og hefði dularfullt hugboð um atburði ýmsa,
áður en þeir gerðust.
Eitt sinn var Jón kallaður til að mæta fyrir rétti og skyldi bera vitni
í þjófnaðarmáli. Grunaði sýslumann, að hann gæti gefið einhverjar
upplýsingar. Sýslumaður áminnti hann um sannsögli svo sem venja
er og segja það eitt, er hann gæti staðfest með eiði. Jón kvað óþarft að
brýna slíkt fyrir sér. „Ég er kvekari, en kvekarar vinna aldrei eið,"*
sagði hann. Var Jón fámáll í réttinum og varðist spurningum sýslu-
manns kænlega.
Þótt Jón væri dulur um eigin hag og svaraði með varúð þeim
spurningum, sem beint var til hans, var hann oft spurull og hnýsinn
um annarra hagi. Hann gat verið meinkaldur í ávarpi og svörum, eink-
um ef hann átti orðum að skipta við yfirlætismenn og stórbokka.
Þurfti á stundum ekki annað til að bera en að þeir stæðu vel við höggi.
Umkomulausa menn beitti hann aldrei slíku. Þó var það eitt í háttum
hans, er hann lét ganga jafnt yfir flesta. Honum var gjarnt að upp-
nefna menn og halda uppnefnum á loft. Var slíkur ósiður þá miklu
algengari en nú. Talið var, að sr. Benedikt faðir hans hafi ekki verið
laus við þann óvana. Sum uppnefni Jóns gátu verið hnyttin sem skop-
nöfn eða réttnefni. Árna hreppstjóra nefndi hann Árna lögmann, Pál
bónda á Hofi nefndi hann Pál goða. Á Hólum var um skeið maður,
sem Sveinn hét og þótti tveggja handa járn. Þennan mann nefndi hann
Skugga-Svein. í Traðarhóli var húsmaður, sem Jóhann hét. Af því
að honum varð það á að sneiða orf öfugum megin, svo að ljárinn, sem
sleginn var í það, kom ekki nærri grasi, þá nefndi Jón hann Jóhann
snilling. Annar Jóhann glæptist á því, er hann heimti skuld hjá skil-
Iitlum strák, að hann lét greiða sér falsaða mynt gerða úr tini. Þann
nefndi hann tinskjöld - eða aðeins skjöld. Björn hét maður - og þótti
ekki mikill fyrir sér. Þann mann nefndi hann Björn brezka. Hefur
hann líklega sótt nafnið í rímur („og með honum brezki Björn,
* Séra Jón Skagan hefur sagt mér, að Jón Benediktsson hafi hér farið með
rétt mál um eiðneitun kvekara. Að vísu var þetta glettni Jóns. Hann gerðist
aldrei kvekari.
18