Skagfirðingabók - 01.01.1967, Side 34
SKAGFIRÐINGABÓK
Jón sté af baki Gránu sinni í fjörunni, er hann fór fram í skipið. Þar
keypti Pétur af honum gæðinginn ásamt hnakk og beizli og greiddi
góðu verði.
Þá er þeir Hólafeðgar voru komnir til Vesturheims ásamt skyldu-
liði sínu, staðnæmdust þeir í Winnipeg og voru þar nokkra mánuði.
En þaðan fóru þeir Jón og Gunnar (yngsti sonur hans) suður til
Norður-Dakota. Þar settust þeir að hjá Guðmundi Péturssyni, sem
áður er um getið og verið hafði leikfélagi Jóns, meðan þeir voru ungir
drengir, og flutzt vestur um haf frá Smiðsgerði. Guðmundur bjó D/o
mílu norðvestur af bænum Mountain. Voru þeir feðgar hjá honum
um þriggja ára bil. Bárust fregnir af því, að Guðmundur hefði tekið
þeim tveim höndum og reynzt vel, enda var hann af öllum kunnugum
talinn prýðismaður. Gafst Guðmundi nú tækifæri til að launa Jóni
rausn hans og hollvilja, eftir því sem unnt var. Að þeim tíma liðnum
héldu þeir feðgar til Kanada og settust þar að í Þingvallanýlendu
svonefndri, um 250 mílur vestur af Winnipeg, en þar höfðu þeir
bræður, Björn og Benedikt, tekið sér heimilisfestarlönd. Halldór
Jónsson hafði orðið eftir í Winnipeg.
Augljóst er, að Jón hefur hvergi unað til lengdar, því að á næstu
árum var hann ýmist í Winnipeg, Norður-Dakota eða Argyle-byggð
(um 100 mílur vestur af Winnipeg), unz hann settist um kyrrt hjá
Gunnari syni sínum árið 1900 í Marshland, 4 mílur vestan við Lang-
ruth (um 90 mílur norðvestur af Winnipeg). Hafði Gunnar kvænzt
það ár Sigurbjörgu Benjamínsdóttur. Var hún fædd í Hrísakoti á
Vatnsnesi. Faðir hennar, Benjamín Guðmundsson, var um skeið
kenndur við Mörk í Laxárdal, en ættaður frá Vesturá. Sigurbjörg var
hálfsystir (samfeðra) Ingibjargar konu Odds Björnssonar prentmeist-
ara á Akureyri. Móðir Sigurbjargar hét Sigríður Jónsdóttir. Ætt
hennar er mér ekki kunn. Líkast er því sem hún komi úr myrkrinu
og hverfi mér út í myrkrið. Hjá þeim Gunnari og konu hans var
Jón síðan til lokadægurs, og fór þar vel um hann. Sigurbjörg lætur
hans getið í bréfi og segir orðrétt: „Var hann mjög gott gamalmenni
og mér góður."
32