Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 16
SKAGFIRÐINGABÓK
ildir hefði ég kosið að geta haft fyllri, einkum að því er varðar síðustu
ár Jóns fyrir vestan haf.
Byrja verð ég á þeirri endurtekningu, er þar var komið sögu í þætti
Benedikts prófasts Vigfússonar, að þeim hjónum, honum og mad.
Þorbjörgu, fæddist sonur 11. febrúar 1838. Var fæðingin hin erfiðasta.
Má vafalaust þakka það Jósef lækni Skaftasyni, að drengurinn sá
dagsins ljós og móðirin lifði. Sveinninn hlaut nafn Jóns móðurföður
síns Konráðssonar. Var hann skírður í heimahúsum 26. febr. eða
síðar nokkru en börn voru skírð að venju þess tíma. Sennilega hefur
verið beðið eftir því, að móðirin næði sæmilegri heilsu eftir barns-
burðinn.
Drengurinn dafnaði vel. Höfðu nokkrir menn orð á því, hve bjartur
og fríður hann væri. Prófastshjónin höfðu áður eignazt fimm börn
og órðið fyrir þeim harmi að missa þau öll. Óttaðist prófastur mjög,
að þessi drengur yrði einnig skammlífur. Talið var, að hann hafi
sífellt haft í huga þau orð Hólmfríðar dóttur sinnar, er hún hafði á
banabeði við föður sinn, að þeim foreldrum hennar mundi eftir
nokkra mánuði fæðast sonur, en þau hefðu ekki ánægju af honum
nema skamma stund. Hefur Hólmfríður án efa verið gædd næmri
dulskynjun, eins og sumir móðurfrændur hennar. Fleira er talið, að hún
hafi sagt fyrir dauða sinn, ^em síðar kom fram.
Uppeldi Jóns mótaðist af ótta föður hans, sérvizku og þráhyggju
(áhrif móðurinnar aldrei nefnd), enda hefur prófastur naumast verið
heill á geði eftir áfallið, er hann varð fyrir við andlát dætra sinna. Ekki
var Jón látinn koma út undir bert loft fyrr en hann var orðinn vel
stálpaður. Sá hann því ekki næsta umhverfi sitt öðruvísi en út um
glugga. Tók hann þó eftir mörgu og þurfti margs að spyrja, því að
hann var bráðger og vildi sérhvað vita. Heimtaði hann óspart að láta
færa sér upp á pallinn það, er hann vildi skoða, s. s. lömb og kálfa
og þó margt fleira. Var þá látið eftir honum allt, sem unnt var. Er á-
stæðulaust að fara um það mörgum orðum. Talið var, að séra Benedikt
hafi alið dætur sínar upp við allharðan aga, en breytt nú um og viljað
gera sem flest að óskum sonar síns, vakað yfir honum og sótzt eftir
því að steypa hann í sitt mót.
14