Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 60
SKAGFIRÐINGABÓK
ófært að búa í eynni, einn maður getur ekki bjargað bát undan sjó í
brimi. Málmey er því nú yfirgefin af öllum nema sínum uppruna-
legu íbúum: fuglunum, sem verpa í björgunum og uppi á eynni, og
selunum, sem skríða upp á sömu skerin og forfeður þeirra hafa gert
í ótaldar árþúsundir til að sóla sig, þegar sær er kyrr og veður gott. Til
Málmeyjar eiga nú engir erindi nema eftirlitsmenn vitans, sem stendur
vestast á eynni sunnanverðri og vísar sjófarendum leið inn „fagra
fjörðinn Skaga."*
Þegar ég læt hugann reika til baka, til þess tíma, er ég átti heima
í Málmey, frá sjö ára aldri og fram yfir tvítugt, þá eru það ekki erfið-
leikarnir, sem eru mér mest í muna. Eg man að vísu eftir erfiðum
lendingum í brimi, þegar engu mátti skeika, ef ekki átti illa að fara,
og ég man eftir þungum byrðum, sem bera varð frá sjó til húsa heim.
Eg man eftir löngum fiskiróðrum á smáum bátkænum út í opið haf,
þar sem aðgæzlan var betri helmingur hreystinnar, ef allt átti að ganga
að óskum, og ég man eftir löngum og þreytandi róðrum frá því í
grárri morgunskímu til svarta myrkurs að kveldi við selaveiðar að
vetrarlagi. En bezt man ég vornæturnar, þegar ég ungur drengur vakti
yfir túninu og hlý og mjúk morgungolan að líðandi nóttu rak á braut
næturþokuna og sólin, sem komin var á loft yfir Austurfjöllunum,
breytti milljónum af daggardropum næturinnar í skínandi perlur.
Þetta er sú mynd af Málmey, sem mér verður minnisstæðust til hinztu
stundar.
* Vitinn í Málmey var reistur árið 1937 °g tekinn í notkun árið eftir.
„í máldagabók Auðuns rauða Hólabiskups frá 1318 segir um Málmeyjarkirkju:
„Þar skal brenna Ijós í kirkju hverja nótt frá krossmessu á hausti og til kross-
messu á vori." Hefir þetta án efa verið til leiðbeiningar fyrir sjófarendur og
verið fyrsti vitinn í Málmey, þótt ófullkominn væri. Og sennilega elzti Ijós-
vitinn við Skagafjörð og þó víðac væri leitað." (Jarða- og búendatal).
58