Skagfirðingabók - 01.01.1967, Síða 148
SKAGFIRÐINGABÓK
Aldís og Jón áttu eitt barn, sem upp komst. Var það Hjörleifur,
sem búið hefur á Gilsbakka um langt skeið, f. 2. ágúst 1890. Annað
barn þeirra hjóna dó í fæðingu. Varð Hjörleifi nokkuð minnisstætt,
þegar barnið var flutt til greftrunar að Silfrastöðum. Faðir hans bar
kistuna á bakinu, en Jósep Jósepsson, mótbýlismaður hans, gekk við
hlið hans og söng sálma. Ekki vissi Hjörleifur, hversu lengi söngur-
inn entist, en Jósep var mikill söngmaður.
Aldís og Jón, meðan hans naut við, ólu upp þessi börn að meira
eða minna leyti:
1. Aldísi Sveinsdóttur, Eiríkssonar á Skatastöðum.
2. Jón Brynjólfsson, Eiríkssonar á Skatastöðum.
3. Aldísi Jórunni Guðnadóttur, Guðnasonar, bónda í Villinganesi.
Ýmislegt um ]ón
Jón var hávaxinn og svaraði sér vel. Fremur stórskorinn og togin-
leitur. Enni hátt. Svipurinn hvass, en góðmannlegur. Fremur var
hann loðbrýndur með stálgrá augu. Hár og skegg skollitað. Kinnbein
há og gat ekki talizt munnfríður. Hann reis snemma úr rekkju og
hafði þá jafnan gert vinnuáætlun fyrir daginn, hvað hann taldi nauð-
synlegt. Oftast lá leið hans í smiðjuna, þegar upp var risið, en stund-
um voru morgunverkin önnur. Var það ósjaldan seinni hluta vetrar,
að Jón kæmi með væna rjúpnakippu ofan úr brekkum um það bil,
sem aðrir komu á fæmr. Enda taldi hann ekki nauðsynlegt að slátra
mörgu til heimilis að haustinu. Sagði, að spaðið kæmi venjulega úr
Bæjarbrekkunum.
Grenjavinnslu stundaði Jón eitthvað framan af ævi. Var það eitt
sinn, þegar honum bar að sofa, að hann vaknar og litast um. Sér hann
þá jafnsnemma félaga sinn, sem átti að vera á vakt, liggja í fasta-
svefni og lágfótu heima á greni. Skaut Jón tófuna þegar í stað, en
eigi vaknaði maðurinn að heldur. Gat þá Jón ekki stillt sig um að
vekja félaga sinn með nokkuð óvenjulegum hætti. Fletti hann frá
honum klæðum og tróð tæfu inn á hann beran, en hún var mjög
blaut á belginn af náttfalli eða rigningu.
146