Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 74
SKAGFIRÐINGABÓK
veldari var langleiðinlegasta og erfiðasta námsgrein, sem ég hef
gluggað í. Og þótt ég hafi við ævistörf mín orðið að fást við tölur og
útreikninga, bæði á pósthúsi og þó einkum í banka, hefur það aldrei
orðið mér til trafala, þótt ég lærði lítið í stærðfræði hinni æðri og
gleymdi því þegar í stað, sem troðið var í mig af algebru og slíku tagi.
Ólafur Gunnarsson var prúðmenni mikið, alla ævi reglumaður, þótt
aldrei væri hann bindindismaður á vín né tóbak. Aldrei sá ég hann
undir áhrifum víns, svo hófsamur var hann, og þekkti hann þó vel á
skólaárum hans í Reykjavík og eftir að hann settist að í Reykjavík sem
læknir. Bjó hann þá í sömu íbúð og við, Veltusundi 3, í nokkra vetur,
meðan hann var að læra læknisfræði. Stundaði hann það nám kapp-
samlega. Var hann þá, síðustu árin, heitbundinn Rögnu Gunnars-
dóttur, kaupmanns Gunnarssonar í Hafnarstræti 8. - Að loknu sér-
námi í beinasjúkdómum í Danmörku og Þýzkalandi giftust þau.
Vegna fjárskorts gat Ólafur ekki stundað sérnámið eins lengi og hann
hefði óskað. Hann var héraðslæknir í Hvammstangahéraði 1915-25, en
fluttist þá til Reykjavíkur. Hann hafði þá fengið vondan sjúkdóm
(magasár), var skorinn upp, en dó eftir uppskurðinn, 15. janúar 1927.
Hann var jarðaður viku síðar. Þá var slydduhríð á suðvestan, hvass-
viðri og dimmt í lofti. Við gengum á eftir kism þessa góða drengs, sem
dáið hafði frá konu og sex ungum börnum. Voru það mörgum þung
spor. Aldrei hef ég þekkt mann, sem minna breyttist frá því ég fyrst
þekkti hann 14 ára, þar til hann dó tæplega 42 ára. Hann var góður
maður og hreinlyndur, laus við viðkvæmni, en þó brjóstgóður, þar
sem þess var þörf. Kjarkmaður, en ekki glanni. Gáfaður og lærður
vel, en ómontinn með öllu. Hann var meðalmaður á hæð, fremur
grannur, en þó knár, var glímumaður á yngri árum, tók þátt í kapp-
glímu í Iðnó, sem ég man eftir. Var að vísu ekki meðal þeirra, er
sigruðu, en varla hefði hann verið með í kappglímu á opinberum
vettvangi, ef hann hefði ekki verið talinn í hópi betri glímumanna.
Hann var skytta góð og veiðimaður. Mjög fínlegur maður og prúður
í framgöngu. Ólafur er framarlega í hópi þeirra mörgu afbragðsmanna,
sem ég hef þekkt á lífsleiðinni, raunar alveg í fremsm röð, þegar á
allt er litið, ásamt þeim Þórði Sveinssyni bókhaldara og Pétri Magn-
ússyni ráðherra.
72