Skagfirðingabók - 01.01.1967, Page 112
SKAGFIRÐINGABÓK
Fjallið var mér alltaf ímynd staðfestunnar. Það hafði góð áhrif á mitt
órólega blóð. En stundum gat þó komið fyrir, að mér gremdist til-
finningaleysi fjallsins og teðruleysi. Hvers vegna gat það ekki hlegið,
þegar lífið ólgaði og svall við rætur þess, eða brosað, þegar lífið hló
allt í kring? Hvers vegna gat fjallið ekki grátið, þegar ég grét eða
varð að byrgja harm minn í hljóði og lífið virtist eintóm sorg og ó-
hamingja? Nei, fjallið grét hvorki né hló, þótt mér fyndust oft ærin
tilefni til þess. Það fór aldrei úr jafnvægi.
Það var þó sannarlega gott, þegar allt kom til alls, að fjallið mitt
bjó yfir þessari óbifanlegu rósemi og kyrrð. Það vakti mér notalega
öryggiskennd, sem ungt og órólegt hjarta var í þörf fyrir. Heimur
minn var að vísu bæði þröngur og viðburðasnauður, en það gerðist þó
alltaf eitthvað, nálega á hverjum degi, sem kom ólgu í blóðið og
skapsmunina, annaðhvort til gleði eða hryggðar. Og þá var alltaf til
bóta að horfa til fjallsins, þar sem rósemi og æðruleysi var höggvið
i hvern drátt í svipmóti þess. Það var nærri því eins og að fara með
bæn.
Já, mér þótti stundum nóg um tómlæti fjallsins á úrslitastundum.
Hluttekningarleysi þess í andstreymi mínu og minna. Það grét ekki
með mér, þegar ég varð að horfa eftir félögum mínum af næsta bæ
fara í kaupstaðinn. Það gladdist ekki með mér, þegar ég fékk að fara
í lambarekstur í fyrsta sinn langt fram í Djúpadal. Það sáust engin
svipbrigði á fjallinu daginn, sem suðaustanrokið tók allt heyið okkar
og sópaði því burt. Þar fór tveggja vikna vinna fyrir ekki neitt. Fjallið
missti ekki snefil af rósemi sinni, þegar nágranni okkar og heimilis-
vinur drukknaði í Vötnunum skammt fyrir vestan bæinn okkar. í raun
og veru var ég þó fjallinu þakklátur fyrir þessa rósemi. Það var gott
að eiga slíkan nágranna, sem allar öldur daglega lífsins brotnuðu á.
En þrátt fyrir staðfestu og jafnlyndi fjallsins gat það þó skipt um
svip, ef vel var að gáð, fyrst og fremst eftir árstíðum og kannski líka,
og engu síður, eftir mínum eigin geðbrigðum, sem voru ekki syo fá-
tíð á þeim árum.
Eg man ekki eftir, að þessi eiginleiki fjallsins kæmi nokkurn tíma
eins greinilega í ljós og á jólunum. Þá ummyndaðist það bókstaflega.
Það breytti ekki um lögun, en yfirbragð og svip. Þegar fjallið baðaði
110