Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Page 10
S va n h i l d u r Ó s k a r s d ó t t i r
10 TMM 2014 · 1
Í þriðja lagi eru svo sýningarmálin í uppnámi. Sýningar fyrir almenning
eru úrvalsleið til þess að miðla gögnum stofnunarinnar og rannsóknum á
þeim. Áður fyrr var handritasýning í Árnagarði en sýningaraðstaðan þar var
léleg. Ný handritasýning var sett upp í Þjóðmenningarhúsinu fyrir rúmum
áratug en henni hefur nú verið lokað vegna breyttra áforma um nýtingu
hússins. Með því að handritasýningin færðist úr Árnagarði á sínum tíma,
rýmkaðist ögn um aðra starfsemi þar. Til lengdar er það þó óheppilegt fyrir
Árnastofnun að missa sýninguna úr sínum húsakynnum að því leyti að þar
með rofna hin eðlilegu tengsl milli sýningar- og fræðastarfs. Almenningur
tengir sýninguna ekki við vettvang rannsóknastarfsins og fræðimennirnir
slitna úr tengslum við miðlunina. Handritasafn Árna Magnússonar öðlaðist
alþjóðlega viðurkenningu árið 2009 þegar það var tekið upp á varðveisluskrá
uNESCO „Minni heimsins“ (Memory of the World Register). Ætti það ekki
að vera sjálfsagður metnaður Íslendinga að búa þannig að sínu merkasta
safni að það geti tekið á móti áhugasömum gestum víða að og á öllum aldri?
Veruleikinn núna er að safnkennari Árnastofnunar stundar farkennslu að
19. aldar hætti til þess að íslensk börn fari ekki á mis við fræðslu um hand-
ritin. Skólafólk erlendis frá og allur almenningur verður að sætta sig við
að sýning er ekki í boði. Er það boðlegt? Í borg sem auk þess hefur verið
útnefnd bókmenntaborg uNESCO, ekki síst með tilvísun til okkar merku
fornbókmennta? Ferðamönnum er mokað inn í landið, og um fjórðungur
þeirra kemur vegna áhuga á sögu þess, en í stað þess að bjóða þeim að skoða
krúnudjásnin og taka af þeim sanngjarnan aðgangseyri eru dýrgripirnir
læstir niðri – handritin geta beðið, við sýnum þau seinna.
Með viðurkenningunni frá uNESCO var lögð áhersla á að handritin eru
menningarverðmæti á heimsvísu. Íslendingar og Danir varðveita þau fyrir
heiminn. Því fylgir einnig sú skylda að gera þennan arf aðgengilegan heims-
byggðinni og í því felst bæði stafræn miðlun og sýningarhald. Þeirri skyldu
geta Íslendingar ekki einfaldlega ýtt yfir á okkur á Árnastofnun með því að
segja: Finniði útúressu. Við hlökkum svo sannarlega til að einhenda okkur í
nútímalega miðlun en við þurfum aðstæður til þess. Og við þurfum fé.
Dýrmætt fræðasamfélag
Sýningar- og miðlunarmál eru semsé sérkapítuli og í ólestri. Samskiptin
við almenning eru þó ekki og verða aldrei nema einn þáttur í starfsemi
Árnastofnunar – aðrir þættir snúa að vísinda- og varðveislustarfinu og þar
er horft út í heim. Sú hlið starfseminnar blasir ekki við í íslenskum hvers-
dagsleika en það er óhemju mikilvægt að fólk skilji að stofnunin hefur ekki
bara skyldur gagnvart íslenskum almenningi, hún rækir líka skyldur sem
Íslendingar hafa gagnvart fræðunum og heiminum.
Árnastofnun er rannsóknarstofnun og fræðasvið hennar er alþjóðlegt
– íslensk fræði eru stunduð víða um heim og starfsmenn stofnunarinnar