Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Side 41
S e n d u r m e ð s v i p u
TMM 2014 · 1 41
verslun í Hafnarfirði, sem um var samið. Ég segi henni af hinum undarlega
förumanni og því sem okkur fór á milli á leiðinni.
– Óttalegar ótuktir eru þeir, að mála karlgreyið í framan og fylla hann í
ofanálag, segir hún. – Guði sé lof, Bjarni litli, að hann slasaðist ekki þegar þú
hentir honum af baki.
Orð hennar læsast um mig og í stað þess að vera hetja, verð ég skyndilega
skömmustulegur, en er fljótur að verja mig.
– Naaah, þetta var mjúkur grasbali og karlinn svo fullur að hann féll
mjúkt eins og kettlingur. Þú átt annars von á honum og getur séð að ég mæli
rétt, hann hljóp í veg fyrir mig hérna rétt ofan við bæinn.
– En ferðin gekk að öðru leyti vel? Þú hlýtur að vera sársvangur og þyrstur,
segir hún og vísar mér inn í bæinn.
– Næ, ég kom við í Torfadal og fékk þar og drekka og … smákökur.
– Þér hefur þó ekki verið boðið inn í bæ? segir hún alvarleg, stoppar í
dyrahúsinu og lítur á mig.
– Ha, er einhver veikur þar?
– Þú veist auðvitað ekki, blessað barnið, að enginn kemur til veslings Guð-
rúnar vegna þess að karlinn hennar er með holdfúa …
– Ha!
– Þú veist, limafallssýki, holdsveiki.
Ég fölna upp því ég hef heyrt svo hræðilegar sögur um Hallgrím og holds-
veikina, finn smákökurnar í maganum breytast í holdsveikipöddur, innihald
magans ólgar … ég hleyp út og sel upp í grasið við hlaðhellurnar. Hún eltir
mig … leggur hönd á bakið á mér meðan ég kúgast og reynir að róa mig.
– Svona, svona Guðrún hlýtur að þvo bollann, og lætur ekki karlinn fara
með fingurvana krumlu í kökukrúsina …
Ég kúgast enn meira, finn vasaklútinn í vasanum innan um mola af
hrognaköku karlsins … úff, hvílíkur dagur.
Ég afþakka allar góðgjörðir, vil bara komast heim, heim til mömmu og
upp í rúm. Þegar ég er sestur á Rauð og er í þann veginn að ríða af stað skýst
flakkarahelvítið fyrir húshornið. Stúlka sem er þar að hengja þvott veinar af
hræðslu og ég hressist við það og hlæ með karlinum og í þetta sinn svarar
Rauður hotti mínu og æðir af stað. Hann er líka orðin hálfgerð taugahrúga
eftir þessa ferð og vill heim, sogar í sig mínar tilfinningar, elsku dýrið, ég
sussa á hann, klappa honum og syng reiðvísur hálfa leiðina heim til að halda
mér glöðum.
– Mér tókst þessi fyrsta sendiferð bærilega, kom kátur heim, segir Bjarni,
– átti von á góðum launum og drap ljónið á veginum, eða drekann, eða hvað
það heitir …
– Sigraðist á ótta þínum? sting ég upp á.
– Já, segir Bjarni og hlær. – Mannaðist.
– Meira í bollann?