Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Page 86
S t e fá n S t e i n s s o n
86 TMM 2014 · 1
vegar fékk ég vitrun þegar ég fann bókina Homeric Greek í Dillons skammt
frá Euston Square í London fjórum dögum eftir að Saddam Hussein fór
inn í Kuwait 1990. Það var í ágústbyrjun. Þar með var teningunum kastað.
Grískukennslan í þeirri bók byggðist á fyrsta þætti Ilíonskviðu en hann er
talinn sjálfstætt snilldarverk í heimsbókmenntunum einn út af fyrir sig.
Ég rauk upp á hótelherbergi með bókina og hóf að glósa upphaf Ilíons-
kviðu á brúnan umbúðapappír. Allt heila glósuverkið sendi ég Gyrði Elías-
syni í pósti. Ég held að Gyrðir skilji ekki enn í dag hvern fjandann ég var
að fara. En hann átti seinna eftir að kynnast konu af kynkvísl Sveinbjarnar
Egilssonar svo það kom vel á vondan. Síðan fór ég til ungverjalands að
heimsækja frænku mína og ferðaðist með henni til Rúmeníu. Þegar þau
hjónin losnuðu við mig gáfu þau út bók sem heitir Úr álögum.
Næstu árin var vaktakerfið í Búðardal jafn hagstætt og það hafði verið
árin á undan. Ég gat því auðveldlega skotist suður í heimsborgina aðra hverja
viku og setið í tímum í grísku og seinna latínu uppi í Háskóla. Það kallaði
dóttir mín þá fimm ára að ég væri í Grískuskólanum. Þegar litli bróðir
hennar sem nú er stór var að gnísta tönnum klagaði hún og sagði: Pabbi hann
var að gríska tönnunum. Þarna sat ég í tímum hjá snillingum í stafrófsröð á
borð við Kolbein Sæmundsson, Sigurð Pétursson og Svavar Hrafn Svavars-
son. Latínutímar hjá Teiti Benediktssyni eru lífsreynsla sem ég hefði ekki
viljað missa af. Mest var kennt í Odda en einnig í Lögbergi og Aðalbyggingu.
Eitt sinn gengum við út fyrir dyr Aðalbyggingar í frímínútum. Það voru
vesturdyr sem vísa upp að Háskólabíói. En þá var tún milli Aðalbyggingar og
Íþróttahúss þar sem nú er Háskólatorg. Þarna fuku gleraugun af Svavari út í
veður og vind og hafa ekki sést síðan. Ég veit aldrei hvort það var sakir þar-
afleiðandi sjónleysis að hann gaf mér 9,5 í Ræðumönnum um vorið. Svavar
var fyrsti kennarinn sem ég hafði sem var 8 árum yngri en ég.
Þessi einkunnagjöf var að mörgu leyti lýsandi fyrir mig í klassísku
deildinni meðan læknadeild hafði meira byggst upp á einkunninni 7,5. Í
klassíkinni fékk ég aftur á móti 7,0 ef ég fékk mér í glas fyrir próf. Það var
eins og vínandi seinkaði ákvarðanatöku milli prófhluta. Í læknadeild hafði
ég ekki verið farinn að fá mér í glas að gagni fyrir próf. Ég veit ekki hvernig
það hefði endað. Sjálfsagt með útskrift. En síðan liðu árin. Ég skemmti mér
við sérfræðipróf í geðlækningum í London engum til gagns og nærðist þau
árin mest á reyk og áfengi. Þetta lifibrauð náði hámarki á tíunda áratug
tuttugustu aldar og þá samsamaði ég mig best Benedikt Gröndal. Ég áleit
mig drykkfelldan misheppnaðan fræðimann og skáld sem enginn skildi eins
og Gröndal. Hvorugur hefur þó sennilega verið alveg misheppnaður þegar
upp var staðið. Einhverjir muna eftir rugluðum blaðagreinum, alls kyns
nöldri, svo kollega á geðdeildinni spurði mig hvort ég hefði farið í maníu
eins og föðurættin. Nei, ég hafði öllu fremur verið að gera lyfjatilraunir á
sjálfum mér eins og móðurættin. Frjálsleg notkun spilliefna getur gert mann
vankaðan eins og maður sé með vatnseitrun. Ég hefði hæglega getað orðið