Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Page 87
H e r ó d ó t u s i f y l g t ú r h l a ð i
TMM 2014 · 1 87
vesalingur vikunnar í DV. Ef ég hefði lent í Sjálfstæðu fólki hjá Jóni Ársæli
hefði hann fengið stóra vælutóninn, þennan sem Pétur Jóhann hermir svo vel
eftir. Það er heldur ekki gott að vera alltaf hress, eins og á fjasbók. Þess vegna
helgaði ég Gilgameskviðu mína minningu Gröndals 1996. Enginn tók eftir
þeirri útgáfu og aðeins tveir keyptu eintak svo ég viti. En eftir að ég sagði
bless við geðlækningar og gekk þar að auki til liðs við Frímúrararegluna
breyttust allar víddir í sálarlífinu. Frímúrarastarfið stillir manni dálítið upp
við vegg hvaða karakter maður er, hvaðan maður kemur og hvern djöfulinn
maður þykist vera að fara, þ.e.a.s. ef maður nennir að hlusta og hugsa. En um
leið og ég varð spakari með víni varð ég verri með hitaeiningum. Því fylgdi
síhækkandi aldur og líkamsþyngdarstuðull. Aldurinn hefði hugsanlega
fylgt hvort sem var og kvíði er samkomulagsatriði. Reyknum hafði ég hætt
þegar Heimir bróðir dó. Það er því kannski engin tilviljun að ég helga nýju
þýðinguna föður Gröndals sem leit með köflum á sig sem einhvers konar
bindindisfrömuð öfugt við mig og varð það honum óbeint að aldurtila. Í dag
er mér einna helst legið á hálsi fyrir líkamsþyngdarstuðul.
Þessi umræða getur ekki haldið áfram án þess að minnst sé á aukafag.
Þegar ég bjó í Bretlandi heyrði ég um menn sem tóku tvö háskólafög, annað
til að vinna við, hitt fyrir tómstund. Á fyrsta áratug þessarar aldar staldraði
ég við í tónlistarskóla til að sjá hvort ég ætti að verða tónskáld í hjáverkum
eins og pabbi. Ég hafði jú alltaf kosið Alþýðubandalagið eins og pabbi, gengið
hratt úti á götu eins og pabbi og reynt að rita greinargóðan stíl eins og pabbi.
Kennurum Tónlistarskólans í Reykjavík tókst af einstakri þrautseigju og
þolinmæði að leiða mér fyrir sjónir að þar ætti ég ekki að vera. Það tók þrjú
ár. Samt var það ekki ætlun þeirra. En ég hafði sem betur fór nægilegt innsæi
til að skilja þau duldu skilaboð sem þeir vissu ekki að þeir voru að senda
út allan tímann. Eða vissu þeir það kannski? Mest þakka ég endurlausnina
Guðmundi tónskáldi Hafsteinssyni. Og þarna hafði ég í fyrsta sinn kennara
sem var 15 árum yngri en ég. Það var Þórður tónskáld Magnússon, sonur
síðasta þjóðskáldsins.
Þarna var ég farinn að undirbúa pistil í Læknablaðið. Það skartaði um
þessar mundir ritröð þar sem kollegarnir fjölluðu um aukafög sín, t.d.
hestamennsku eða vínsmökkun. Hestamennska er göfugasta form úreltrar
samgöngutækni, vínsmökkun er göfugasta form drykkjusýkinnar. Ég ætlaði
að skrifa um leit mína að aukafagi, villuráf milli tónsmíða og klassískra
fræða. En skömmu eftir að ég færði mig yfir í bráðalækningar var öll rit-
stjórn Læknablaðsins rekin á einu bretti. Ég man ekki lengur hvort hún
hafði sagt eitthvað ljótt um Kára Stefánsson og verið rekin þess vegna eða
hvort hún hafði sagt eitthvað fallegt um Kára Stefánsson og verið rekin þess
vegna. Alltént var ráðin ný og gáfaðri ritstjórn sem var líklegri til að segja allt
pólitískt kórrétt um Kára Stefánsson. Sú ritstjórn henti út greinaflokknum
um aukafög svo ég varð að sleppa því að skrifa í hann.
Nú var úr vöndu að ráða. Ég fór að taka helgarvaktir á Hvolsvelli og las