Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Page 92
S t e fá n S t e i n s s o n
92 TMM 2014 · 1
fyrirlíta allt sem varðveitt er í heilu lagi og vilja ekkert nema brot. Ég er ekki
handritafræðingur. En Silja frelsaði mig undan Þúkýdídes-hugleiðingum
þegar hún sagði mér að Sigurjón sálfræðiprófessor Björnsson hefði lokið við
að þýða hann. Og það var eins og heilum Öræfajökli væri létt af sálu minni
þegar kynni mín af Þúkýdídesi voru orðin að endurminningu. Í staðinn hef
ég aðeins kroppað í ræðu Andókídesar um launhelgarnar og hugleitt sögu
Apolloníusar frá Roðey um ferðalag Argóarfara eftir gullna reyfinu sem og
Sanna sögu Lúkíanusar af ferðinni til tunglsins. Nú er ég ráðinn til sjúkra-
flugs með Mýflugi og ef þeim tekst ekki að koma mér yfir í sælli veröld væri
ég til í að takast á við Danmerkursögu Saxa málspaka. Ef einhver veit um
einhvern sem er að takast á við eitthvað af þessu sem ég hef nefnt bið ég þann
hinn sama að láta mig vita og mun ég samstundis draga mig í hlé. Ég tel
flesta aðra betri þýðendur en mig en ég bý við þessa áráttu að verða að halda
áfram. Sem betur fer hefur mér tekist að gera Heródótus sæmilega úr garði
svo að öllum Íslendingum er sómi að fá hann að gjöf. Höfundur á reyndar
talsverðan þátt í því.
Ég ræddi eitt sinn við Óttar lækni Guðmundsson hvort væri kræsilegra
þýðingarstarf eða frumsamið. Hann kaus frumsamið. En ég gæti ekki tekið
ábyrgð á því að eitthvað sem ég hefði samið ætti að geymast meðal manna
eða seljast fyrir fé. Í ljósi Heródótusar myndi ég líka krefjast þess að það
héldi markaðshlutdeild í 2400 ár. Það yrði eins og kvennamálin hjá Jóhann-
esi Brahms, óyfirstíganleg viðmið á borð við Klöru Schumann. Í þýðingum
þarf maður ekkert að hugsa um þýðingarverðlaun Norðurlandaráðs eða
þýðingamessu í Frankfurt, slíkt er einfaldlega ekki til. Einna helst gæti
ég sett nokkur ljóð í prentun. Af þeim á ég slatta. Eitt sinn var til stefna í
arkitektúr sem hét brútalismi. Ég hugsa að ljóð mín falli í þann flokk.
Áður hef ég drepið á þá áráttu sem það er að vera að standa í þessu. En það er
líka yfirbót. Allir þeir sem lærðu með mér í Bretlandi og flestir úr læknadeild
hafa lokið doktorsprófi. Meira að segja drykkfelldasti læknaneminn frá
Laugarvatni hefur lokið doktorsprófi. Og sá sem reykti mest og kom úr
MA (honum voru reykingar heilagar) er orðinn doktor í varðveislu lungna-
sjúkdóma. Það er rúmur aldarfjórðungur síðan ég stóð í læknisbústaðnum
á Þingeyri og straujaði skyrtu og sendi konungi Svíþjóðar eintak af doktors-
ritgerð minni í huganum. Þá var ég á leið í fæðingalækningar. Ekkert varð
úr því. Ég hef aldrei vitað aðra eins vitleysu. En ég hef 20 sinnum byrjað á
rannsókn í læknisfræði og alltaf hætt. Það er ógeðslega leiðinlegt. Það er því
nokkurs konar yfirbót að standa fyrir útgáfu á pésa eins og Heródótusar. Ég
vona að hann varðveitist ekki verr í minni manna en meðal doktorsritgerð
uppi á hillu inni hjá læknariturum.
Fyrir þá sem vænta yfirlits yfir kverið er óhætt að segja að 1. bók fjallar
um Krösus og Kýrus, 2. bók um Egyptaland, 3. um átök Persa og Egypta og
valdatöku Daríusar í Persíu, 4. um hernað Daríusar gegn Skýþum þar sem
nú er Úkraína og gegn Afríku sem Hellenar kölluðu Líbýu, 5. um uppreisn