Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Síða 106
Á g ú s t B o r g þ ó r
106 TMM 2014 · 1
tilhugalíf loksins úr sögunni. Það var síðan löngu eftir það sem Óskar frétti
að Bragi hefði ráðist á sambýlismann Þóru. Fyrstu fréttir af þessu bárust frá
móðurinni og þær hljómuðu ekki mjög áreiðanlegar.
„Bragi og Þormar lentu víst í slagsmálum,“ sagði hún í símann. „Ég vildi
bara láta þig vita af því ef ske kynni ef þú fréttir þetta úti í bæ.“
„Hver er Þormar?“
„Nú, kærastinn hennar Þóru!“
„Og hvers vegna lentu þeir í slagsmálum?“
„Ég veit það ekki, ætli Þormar sé ekki bara að deyja úr afbrýðisemi, dauð-
hræddur um Þóru sína.“
„Að hann hafi ráðist á Braga?“
„Já, örugglega. Pabbi hans var víst frægur slagsmálahundur fyrir vestan.“
„En Bragi og Þóra hættu saman fyrir mörgum árum. Hvers vegna ætti
þessi Þormar að vera afbrýðisamur?“
„Spurðu mig ekki að því. Bragi leit inn til mín í gærkvöld og hann var með
þennan hrikalega hálsríg ennþá eftir manninn, getur varla hreyft höfuðið.“
„Og hvar slógust þeir? Á einhverri búllu?“
„Nei, heima hjá Þóru.“
„Og hvað var Bragi að gera þar? Það eru örugglega meira en sjö ár síðan
hann flutti frá henni?“
„Ég veit það ekki. Hann á náttúrulega hana Ölmu með henni, ætli það hafi
ekki bara verið eitthvað í sambandi við hana.“
Þetta samtal vakti fleiri spurningar en það svaraði svo Óskar hringdi í
eldri systur þeirra, Báru, sem var í nánara sambandi við Braga en hann.
„Þetta var út af þvottinum, Þormar dirfðist að hafa skoðun á því að Þóra
væri að þvo af Braga.“
„Var Þóra að þvo af Braga? Eftir öll þessi ár? Hvers vegna í ósköpunum?“
„Sko, Bragi á ekki þurrkara, ekki mamma heldur, og svo var hann eitthvað
ósáttur við hvernig Lovísa hengir upp og straujar af honum.“
„Hver er Lovísa?“
„Sambýliskona Braga. Hefurðu ekki hitt hana?“
„Aldrei hitt hana og aldrei heyrt hana nefnda.“
„Hún flutti til hans í haust. Ægilega góð stelpa en óttalegur krakki, bara 22
ára. Og kannski ekki gangandi húsmæðraskóli eins og Þóra, þú veist hvernig
hún er.“
„Af hverju hengir hann bara ekki upp af sér sjálfur og straujar?“
„Það var nú það sem Þormar var að gera veður út af.“
„Já, en hvers vegna? Ég er búinn að hengja upp og strauja í mörg ár og samt
á ég konu. Hvaða rugl er þetta í manninum? Og í henni?“
„Það er bara þessi hræðilega meðvirkni, þessi hryllilegi sjúkdómur sem ég
þekki allt of vel sjálf og hef virkilega þurft að hafa fyrir að ná bata frá.“
Óskar andvarpaði, Bára hafði skilið fyrir mörgum árum og eftir skilnaðinn
vitnaði hún um ofdrykkju eiginmannsins og andlegt ofbeldi af hans hálfu.