Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Síða 79
„ M a n n k y n s s a g a n s e m s ö g u l e g s k á l d s a g a“
TMM 2018 · 3 79
hinn. Ég held sem sé að reynsla og rannsóknir geti farið betur saman en oft
er látið í veðri vaka og að gamla hlutlægni-hugmyndin um fræði og vísindi
hafi verið helst til lífsseig í ýmsum skrifum um bókmenntir; hún voki víða
enn yfir and stæðuparinu rannsóknir~reynsla og afskrifi einatt reynsluna.
Þá skiptir ekki litlu að vilji höfundur fjalla um hina valdalausu eða valda-
litlu í samfélaginu, konur, börn, samkynhneigða eða aðra minnihlutahópa,
eru ritaðar heimildir oft af skornum skammti; vildi ég skrifa sögulega skáld-
sögu um tiltekinn langalangalangafa minn myndi ég strax lenda í vand-
ræðum af því að móður hans er hvergi getið í heimildum, að því er ég kemst
næst. Og það eru ekki síst eyðurnar og útilokunin í sögunni sem hafa orðið
til þess að skáldsagnahöfundar víða um lönd hafa laðast að sögulegum skáld-
skap síðustu áratugi. Hann gefur þeim tilefni til að draga upp aðra mynd af
fortíðinni en sagnfræðin hefur lengst af gert; þeir geta með öðrum orðum
tengt staðreyndir og staðreyndabrot á annan hátt en tíðkast hefur; túlkað þau
frá öðru sjónarhorni og auðgað þau með ímyndunarafli sínu og tilfinningu
fyrir samtíð og fortíð.
Sögulegur skáldskapur spannar afar fjölbreytt svið enda oft kenndur við
fleira en söguna, t.d. ástir og glæpi, hrylling og hið gotneska, fantasíu og stað-
leysu, spennu og vestra, morðgátu og ævintýri, svo að ekki sé minnst á að les-
endahópurinn sem hann er ætlaður getur jafnt tekið til barna, unglinga sem
fullorðinna.9 En slíkur skáldskapur hefur tekið miklum stakkaskiptum síðan
á 19. öld og kemur margt til. Ef litið er yfir síðustu hálfa öld eða ríflega það,
má meðal annars nefna sjálfsvitund hinnar svokölluðu póstmódernísku sögu
og frásagnareinkenni hennar; svo og rannsóknir síðustu áratuga í taugafræði
sem hafa eflt skilning manna á minni, tilfinningum / geðshræringum, sjálfi
og fleiru. Þetta tvennt hefur lagt sitt til þess hvað sögulegi skáldskapurinn
er orðinn fjölbreyttur. Og einmitt fjölbreytnin veldur því að spyrja má hvort
þær skilgreiningar sem menn hafa lengst af nýtt dugi til að gera grein fyrir
honum öllum. Væri t.d. einfalt að finna skilgreiningu sem ætti vel við þessar
bækur, sem allar hafa verið kallaðar sögulegar skáldsögur: Myndina af
heiminum eftir Pétur Gunnarsson, Mei mí beibísitt eftir Mörtu Eiríksdóttur,
Örninn og fálkann eftir Val Gunnarsson og Auði Vilborgar Davíðsdóttur?
Eitt af því sem hefur verið talið einkenna ýmsan sögulegan skáldskap er að
hann geri fortíðina framandi og skapi annarleikatilfinningu í lesandanum.10
Slík tilfinning fylgir þó ekki öllum skáldskap af því tagi. Vilji menn leggja
niður fyrir sér íslenskan sögulegan skáldskap, rís því upp sú spurning hvort
ekki sé skynsamlegt að styðjast fyrst við víða einfalda skilgreiningu á honum
en setja á oddinn að greina dæmigerðir (e. prototypes) hans. Almenn bráða-
birgðaskilgreining gæti t.d. verið:
Sögulegur skáldskapur styðst að einhverju marki við heimildir og fæst við að lýsa
tíma sem er liðinn eða aðstæðum sem gætu eða hefðu getað risið upp.
TMM_3_2018.indd 79 23.8.2018 14:19