Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Page 5
INNGANGUR
4
greiningu á ólíkum tímabilum ferils Þórbergs, hafi orðið til þess að ákveðin
svið hafi fallið í skuggann.
Annað sem fylgt hefur sjónarhorninu sem bundið er skáldverkum Þór-
bergs er að þau hafa verið lesin með fagurfræðilegum og skáldskaparlegum
áherslum, en minna verið hugað að tengslum við aðra þætti höfundar-
verksins. Þegar þau eru könnuð nánar og horft á þá ólíku þætti sem þar
koma saman, birtist verk sem er á margan hátt heilsteyptara en virðast kann
í fyrstu. Forvitnilegt er að grípa niður í lýsingu Þórbergs á undirstöðum
vísindalegrar sýnar hans á þjóðfélag, náttúru, tungumál og vitundina í Al-
þjóðamáli og málleysum:
Dr. Zamenhof hefir leyst af hendi svipað hlutverk fyrir hin alþjóð-
legu málvísindi eins og Darwin vann í þágu náttúrufræðinnar, Karl
Marx í þjónustu þjóðfélagsmálanna og F. Myers í þarfir sálarrann-
sóknanna. Þessir menn hafa lagt grundvöll að fjórum meginvís-
indagreinum hins nýja tíma.9
Þarna víkur Þórbergur að fjórum meginstoðum nútímavísinda í málvísind-
um, líffræði, félagsfræði og sálarfræði, sem hver með sínum hætti verða að
undirstöðuþætti í heimssýn hans. Hver og ein þessara stoða leggur sitt af
mörkum í því verkefni pólitískrar byltingar, andlegrar vakningar, líffræði-
legrar framþróunar og umbyltingar tungumálsins sem Þórbergur ætlaði
verkum sínum að stuðla að. Þar eru þau rit hans sem gjarnan hafa verið lesin
sem skáldverk eða fagurbókmenntir í þrengri skilningi ekki undanskilin.
Vert er því að minna á það sem Þórbergur var óþreytandi að leggja áherslu
á, „að bækur ættu að hafa þrjá megineiginleika: Þær ættu að vera fræðandi,
göfgandi og örvandi“.10 Tengslin á milli þessara þriggja þátta í virkni skrifa
hans kunna að vera mun fjölbreyttari en marga grunar.
Þær þrjár greinar sem birtast undir ritstjórn Benedikts Hjartarsonar og
Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur í þessu hefti Ritsins beina hver með sínum
hætti sjónum að mikilvægum þætti í skrifum Þórbergs, sem fræðimenn hafa
gefið lítinn gaum. Greinarnar eiga allar að einhverju marki upptök sín í
fyrirlestrum sem fluttir voru á haustþingi Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit
árið 2018, undir yfirskriftinni „Hér lötra allir troðnar slóðir. Hér leggur
enginn nýja vegi“. Tvær greinanna eru helgaðar dulspekinni í skrifum Þór-
9 Þórbergur Þórðarson, Alþjóðamál og málleysur, Reykjavík: Bókadeild Menningarsjóðs,
1933, bls. 73–74.
10 Þórbergur Þórðarson, Meistarar og lærisveinar, eftir Stóra ævisögulega handritinu,
Arngrímur Vídalín bjó til útgáfu, Reykjavík: Forlagið, 2010, bls. 99.