Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Síða 7
INNGANGUR
6
verki Þórbergs sem fræðimenn hafa sinnt takmarkað. Í „Leikið orðtólum“
fjalla Aðalsteinn Eyþórsson og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir um málvísindi
og táknfræði Þórbergs og varpa ljósi á margbrotin tengsl skrifa hans við
vísindakenningar samtímans. Þar kemur glöggt fram hversu sjálfstæður Þór-
bergur var í skoðunum sínum á táknum og tungumálum, ekki síður en öðru.
Hann mun til að mynda hafa þekkt til verka Ferdinands de Saussure en valið
sér annan skilning en hann á táknum og máli. Tvær þýðingar tengjast grein-
unum þremur um Þórberg. Annars vegar er um að ræða þýðingu Kristjáns
Eiríkssonar á bréfi eftir Eúgeno Lanti, sem þýtt er úr esperanto og varpar
forvitnilegu ljósi á mikla umrótatíma í sögu alþjóðamálsins. Hins vegar er
þýðing Jóns Bjarna Atlasonar á bókarkafla eftir Jakob von Uexküll, sem var
einn af brautryðjendum svokallaðrar líftáknfræði, sem kemur nokkuð við
sögu í grein Aðalsteins og Bergljótar.
III
Eitt af því sem markaði Þórbergi Þórðarsyni sérstöðu var þörf hans fyrir að
skrásetja veruleikann. Um það vitna útgefin verk hans en einnig er skráning-
arþörfin greinileg í dagbókum hans. Í þær skrifaði Þórbergur ekki eingöngu
um daglegt líf, athafnir sínar og hverja hann umgekkst heldur skrásetti hann
sitt af hverju; til dæmis hélt hann nákvæmt yfirlit um veður, á ólíkum tímum
sólarhringsins, og hve mörg skref hann gekk á degi hverjum. Dagbækurnar
spanna 65 ár og nema hundruðum og því er ljóst að þær hafa bæði krafist
mikils úthalds og mikillar vinnu.15 Í grein um dagbækur Þórbergs segir Pétur
Gunnarsson að rithöfundurinn skeri sig úr fjölda dagbókarritara íslenskra til
sjávar og sveita á 20. öld því „það sem honum dettur í hug að skrá sprengir af
sér alla viðurkennda staðla“.16 Ef Þórbergur lifði á okkar tímum væru skrá-
setningar hans þó ekki undarlegar eða einstakar heldur almennar, enda eiga
flestir snjallsíma með ótal öpp sem einfalda til muna sambærilegar skrán-
ingar og þær sem Þórbergur lagði sig fram um að færa til bókar. Tæknin
hefur sem sagt gert fólki kleift að halda utan um skrefafjölda, veðurfar, loft-
þrýsting, sjávarföll og stöðu himintunglanna – og í raun hvað sem því dettur
15 Pétur Gunnarsson, „Að taka veðrið. Dagbókarheimur Þórbergs Þórðarsonar“,
að skilja undraljós. Greinar um Þórberg Þórðarson, verk hans og hugðarefni, ritstjórar
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Hjalti Snær ægisson, Reykjavík: Bókmennta- og
listfræðastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, 2010, bls. 147–153, hér bls.
147–149.
16 Sama heimild, bls. 148.