Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Qupperneq 15
STeFÁN ÁGÚSTSSON
14
guðspekinnar víða í ritum Þórbergs, og líka í þeim síðustu, þó ekki
sé rúm til að rekja það hér.9
Sú sérstaka náttúrusýn sem birtist í Steinarnir tala kemur ekki síst fram í því
að Bergur litli sér líf í öllu, líka hinni dauðu náttúru og veraldlegum hlutum
sem í augum drengsins hafa eins og menn og skepnur ódauðlega sál. Halldór
Guðmundsson álítur að tengja megi þessa sýn anímisma10 eða frumstæðri
algyðistrú, þar sem allir hlutir hafi sál og séu partur af alheimsandanum en
telur hana jafnframt vera aðferð skálds ins til að sýna umgjörð náttúrunnar
um mannlífið „með því að draga fram eilífðina í hinu hversdagslega.“11
Pétur Gunnarsson tekur í svipaðan streng en hann telur samband Þór-
bergs við steina vera einkennilegasta dæmið um anímisma hans.12 Pétur, líkt
og Halldór, hefur þetta samband til marks um það hlutverk sem Þórbergur
ætlaði Suðursveitar bókunum, það er að bjarga frá gleymsku öllu því sem átti
sér stað í heimahögunum. Hann hafi viljað varðveita þá menningu sem hann
ólst upp við í Suðursveit en skrá setningu hennar telur Pétur vera einhvers
konar paradísarheimt.
Soffía Auður Birgisdóttir tekur náttúrusýnina í Steinarnir tala til vitnis
um heildarhyggju Þórbergs, þá hugsun hans að allt líf sé fætt af einni heild
sem það hverfi síðan aftur til. Hún telur að tengja megi þessa heildarhyggju
við guðspeki og indverska heimspeki en leggur megináherslu á að tengja
hana orðræðu róm antíkur.13
Þórbergi er án vafa í mun að varðveita frá gleymsku það viðhorf til til-
verunnar sem hann ólst upp við í Suðursveit, eins og Halldór og Pétur benda
á. Spurningin er hins vegar hvort málið snúist einvörðungu um varðveislu
eða hvort Þórbergur hafi ef til vill komið auga á samhljóm milli þeirrar nátt-
úrutrúar sem hann ólst upp við og þeirrar þekkingar sem hann aflaði sér
síðar á lífsleiðinni og átti uppruna sinn í fjarlægum menningarheimum. Hér
verður kannað hvort náttúrusýnin, sem birtist í Steinarnir tala, sé bundin við
Suður sveit eða hafi einkenni sem gætu átt sér alþjóðlegri samsvörun í þekk-
9 Sigfús Daðason, „Þórbergur Þórðarson“, Andvari 1/1981, bls. 3–42, hér bls. 33.
10 Halldór Guðmundsson og Pétur Gunnarsson nota orðið anímismi yfir það sem í
þessari grein er kallað upp á íslensku náttúrutrú.
11 Halldór Guðmundsson, Skáldalíf. Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri,
Reykjavík: JPV útgáfa, 2006, bls. 24.
12 Pétur Gunnarsson, ÞÞ. Í forheimskunarlandi Reykjavík: JPV útgáfa, 2010, bls. 177–
179.
13 Soffía Auður Birgisdóttir, Ég skapa – þess vegna er ég, Reykjavík: Bókaútgáfan Opna,
2015, bls. 120.