Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Page 28
„ALLT SeM HeFUR VeRIð TIL, HeLDUR ÁFRAM Að VeRA TIL“
27
aftur á síðari stigum í þróun mannsins. Þegar það gerist er hún mun sterkari
og auðveldara að ná tökum á henni og þróa en áður.64
Leadbeater gerir grein fyrir mismunandi stigum skyggnigáfna og til-
greinir nokkur dæmi. Í flestum tilvikum þarf sá skyggni að fá eitthvað sem
tengir hann við tímann sem skal skoða. Leadbeater tekur dæmi þar sem
hann rétti skyggn um manni umslag sem innihélt litla steinflís sem tilheyrði
Stonehenge. Þrátt fyrir að vita ekki hvað var í umslaginu, hóf sá skyggni að
lýsa þessum fornminjum og nánasta umhverfi þeirra, auk þess að lýsa því
sem greinilega sýndi fortíð flísarinnar.65
Í Steinarnir tala reynir Bergur litli að ná sambandi við steinana, það
skyldu þó ekki vera miðilshæfileikarnir sem hann vill þroska? Bergur litli
reynir af þolinmæði að komast í samband við steinana. Hann horfir á þá,
talar við þá og reynir að hlusta á þá en eitthvað lætur árangurinn á sér standa.
Sögumaðurinn, hinn fullorðni Þórbergur kennir það þekkingarleysi fremur
en öðru:
Mér var alveg náttúrlegt að hugsa, að maður gæti heyrt frá þeim
raddir og skilið í þeim hugsanir, ef maður heyrði nógu vel og væri
nógu fimur til þess að skilja. en maður þyrfti að æfa sig til þess, og
ef maður æfði sig nógu lengi, þá færi maður að heyra og skilja. en
ég vissi ekki þá, hvernig maður ætti að æfa sig. (151)
Þessar hugmyndir Bergs litla fara saman við kenningar guðspekinnar um
hvernig hægt sé að nálgast liðna tíma í gegnum skyggnigáfuna og freista
þess að fá skýra mynd af því hvernig veröldin var í árdaga. Þó að Berg skorti
þekkingu til að þróa þessa gáfu, þekkir skáldið sem ritar æskuminningar
sínar hugmyndir guðspekinga um skyggni gáfu. Þegar sögumaðurinn segist
ekki hafa vitað þá hvernig ætti að æfa sig vísar hann eflaust til þeirrar þekk-
ingar sem Þórbergur hefur aflað sér síðar á ævinni.
Guðspekingar telja skyggnigáfuna gagnlega til að glöggva sig á tilver unni
og sögu hennar og líta svo á að hægt sé að nota slíka gáfu til jafns við ýmsar
aðrar aðferðir Blavatsky sem áður hafa verið nefndar. Blavatsky skoðar til
dæmis bókmenntir og frásagnir fornra menningarsamfélaga til að styðja
kenningar sínar um þróunar ferlið sem guðspekin styðst við. Í öðru bindi
ritsins Secret Doctrine dregur hún fram ýmsar heimildir úr ólíkum áttum til
64 Sama heimild, bls. 22.
65 Sama heimild, bls. 114.