Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Síða 40
„ALLT SeM HeFUR VeRIð TIL, HeLDUR ÁFRAM Að VeRA TIL“
39
jafnframt við að einmitt vegna þessara áhrifa hafi hann ekki endurbirt ljóðið
í þriðju ljóðabók sinni, Hvítum hröfnum (1922) þar sem fyrri tvær bækur hans
eru sameinaðar og nýjum ljóðum bætt við.90 enda kveður við allt annan tón í
verkum þeirrar bókar eins og titillinn einn ber með sér en honum er augljós-
lega beint gegn Svörtum fjöðrum (1919), vinsælu verki Davíðs Stefánssonar
sem kom út á hátindi nýrómantíkurinnar. Þórbergur tekur sjálfur af allan
vafa um að í bók hans sé deilt á nýrómantísku skáldin íslensku: „Bæklingur
minn var hæðnisþrungin uppreisn gegn kynferðisvoli síðustu ljóðskálda
vorra.“91 Þórbergur greindi holan hljóm í myndmáli þessara skálda eins og
umfjöllun hans um ljóðið Til hypothetista er góður vitnisburður um:
Orðið hypothetisti er myndað af höfundi kvæðisins og er einskonar
samnefnari, sem allir rómantískir jarmarar og lýrskir vælukjóar
gengu upp í. Það er hugsað þannig, að hypothetistinn sé persóna
sem lifi líktog [svo] í hypothesum í stað þess að mæta lífinu með
opnum staðreyndum. Kvæðið er knúð fram af viðbjóðslegri klígju
og velgju við öllum þeirra tíðar Huldum, huldumeyjum og Sól-
veigum.92
ekki er að sjá að byltingarkennd afstaðan sem birtist í ljóðum Þórbergs hafi
vakið sérstaka eftirtekt á sínum tíma. Jakob Jóhannesson Smári fjallaði þó
um ljóðin og sérstaklega um hæðnina sem honum þótti nóg um en benti
síðan á líkindin með skáldskap Þórbergs og þýska skáldsins Heinrichs
Heine sem birtist í snöggum skiptum milli „sorgar og gleði, viðkvæmni og
spotts.“93 Hér er um að ræða sviptingar sem oft snúa merkingu ljóða þeirra
beggja á hvolf, því sem í fyrstu virðist einlæg hrifning er skyndilega snúið
upp í hæðni.
Þessi tengsl við Heine eru ekki úr lausu lofti gripin og má ráða af um-
fjöllun Jakobs að honum var kunnugt um að Þórbergur þekkti til þýska
skáldsins. Soffía Auður hefur að sama skapi gert ítarlega grein fyrir tengslum
skáldanna en ljóst er að áhrifa Heines gætir víða í íslenskri bókmenntasögu
og þar er hann gjarnan tengdur við rómantísku stefnuna enda liggja rætur
hans í henni.94 en hvað sem íslenskri bókmenntasögu líður, er óalgengt að
sú þýska skilgreini Heine sem rómantískt skáld. Honum er mun frekar lýst
90 Þórbergur Þórðarson, Edda, Reykjavík: Mál og menning, 1984, bls. 20–21.
91 Þórbergur Þórðarson, Frásagnir, Reykjavík: Mál og menning, 1983, bls. 302.
92 Þórbergur Þórðarson, Edda, bls. 40.
93 Jakob Jóh. Smári, „Styrr Stofuglamm“, Landið 3: 1/1918, bls. 4.
94 Soffía Auður Birgisdóttir, Ég skapa – þess vegna er ég, bls. 98 –101 og 185–191.