Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 48
KRISHNaMURTI OG ÞóRBERGUR
47
hvernig þær endurspeglast í skrifum Þórbergs um dulspeki en jafnframt í
öðrum verkum hans. Ég ræði sérstaklega um Íslenzkan aðal í þessu samhengi.
Markmiðið er ekki að grafast fyrir um upprunalegar rætur eða sameigin-
legan jarðveg dulspekihugmynda, heldur að varpa ljósi á hvernig hugmyndir
sem koma fram í verkum Krishnamurtis8 speglast einnig í ritum Þórbergs,
eða öllu heldur hvernig útfærsla og túlkun Þórbergs á kenningum Kris-
hnamurtis kemur fram í hans eigin verkum.
Í kjölfar endurfæðingar
Íslenzkur aðall (1938) markaði ákveðin tímamót á rithöfundarferli Þórbergs
sem fyrsta samfellda skáldverk hans, en fyrri ritverk (til dæmis Bréf til Láru
(1925) og Rauða hættan (1935)) höfðu verið meiri samfélagsádeilur eða
fjallað um önnur áhugamál hans (til dæmis Alþjóðamál og málleysur (1933)
um esperantó). Má því segja að Íslenzkur aðall hafi þar með verið afrakst-
ur síðustu endurfæðingarinnar fimm árum fyrr, en henni lýsir Þórbergur
í „Endurfæðingarkrónikunni“ í bréfi til vinar síns, bókmenntafræðingsins
Stefáns Einarssonar, árið 1939:
1933:
Endurfæðist skýrt og skorinort til ritstarfa. Þessi endurfæðing byrj-
aði í raun og veru á óðinsgötunni einn sunnudag í aprílmánuði
1932, en svo virtist ekkert ætla að verða úr henni, unz hún reif sig í
gegn um mig með skakandi ofsa í nóvembermánuði 1933.9
Þessi lýsing á endurfæðingunni virðist orð að sönnu því ári seinna, eða í
nóvember 1934, segir Þórbergur í bréfi til þessa sama Stefáns frá öllum þeim
verkum sem hann sé með í smíðum; Íslensk-esperantískri orðabók, greina-
flokki gegn Hitler, ritgerð um góðan vin sinn, skáldið Stefán frá Hvítadal
sem lést árið áður (1933), bók um kenningar Krishnamurtis og að lokum
ævisögu sjálfs sín og samtíðar sinnar.10
8 Hér mun ég takmarka mig við þau verk Krishnamurtis sem þýdd höfðu verið á ís-
lensku á ritunartíma Íslensks aðals, þó að nokkuð víst sé að Þórbergur hafi lesið mikið
á öðrum tungumálum. Hins vegar tel ég fremur líklegt að hann hafi öðru fremur
kynnt sér það sem kom út á íslensku, ekki síst vegna þess að hann hafði sjálfur í huga
að skrifa bók um kenningar Krishnamurtis, samanber umfjöllun seinna í þessari
grein.
9 Stefán Einarsson, Þórbergur Þórðarson fræðimaður – spámaður – skáld, fimmtugur,
Reykjavík: Heimskringla, 1939, bls. 10.
10 Þórbergur Þórðarson, „Bréf til Stefáns Einarssonar, 2. nóvember 1934“, bréfasafn