Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Side 62
KRISHNaMURTI OG ÞóRBERGUR
61
En það er ekki einungis í sögum Þórbergs sem hinn ópersónulegi kemur
fyrir. Í fyrirlestri sem Þórbergur hélt um „andlegt frelsi“ sem Stúdentafélag
Reykjavíkur stóð fyrir í Tjarnarbíói í byrjun árs 1950 hefur hann þetta að
segja um innra aflið:
Ef við gefum öðruhvoru tóm frá lágkúruhugrenningum daglegs lífs
til að leita lítið eitt dýpra inn í sálarlíf okkar, þá munum við finna
fyrr eða síðar, að bak við allt þetta rusl ástríðna og eigingirni ljómar
hinn ópersónulegi maður, hið samvirka eðli, hið fráhverfa viðhorf,
hinn æðri maður, en útsýn hans yfir lífið hefur Einar Benediktsson
lýst með þessum orðum:
Ég veit, að allt er af einu fætt
og alheimsins líf er ein voldug ætt.71
Einar Benediktsson hafði mikil áhrif á Þórberg og hans kynslóð í upphafi
tuttugustu aldar, eins og kemur fram í Íslenzkum aðli og Ofvitanum. Í lok
fyrra bindis Ofvitans segir Þórbergur að algyðishugmyndirnar í skáldskap
Einars hafi verið „fyrsti vísir [hans] til dýpra lífsskilnings.“72 Ekki fer heldur
á milli mála að Einar hefur haft áhrif á kvæðið „Nótt“ sem Þórbergur segir
frá í upphafi Íslenzks aðals og verður að ákveðnu leiðarstefi í gegnum alla
bókina.73
Þórbergur gerir enn betur grein fyrir hinum ópersónulega manni í grein
71 Þórbergur Þórðarson, „andlegt frelsi. Erindi flutt á fundi Stúdentafélags Reykja-
víkur 12. jan. 1950, aukið og endurbætt“, Tímarit Máls og menningar 1–2/1950, bls.
6–23, hér bls. 22–23.
72 Þórbergur Þórðarson, Ofvitinn, fyrra bindi, bls. 272.
73 Þórbergur er samt sem áður einnig mjög gagnrýninn á Einar Benediktsson. Í Ís-
lenzkum aðli talar hann til dæmis um stórbrotna spekinga „sem gátu snúið hverjum
lagabókstaf upp í lögleysu, seldu útlendum einfeldningum norðurljós og jarðskjálfta
dýrum dómum og ortu ódauðleg meistaraverk emjandi í spýju sinni“ sem er nokkuð
skýrt skot á viðskiptasnilli og skáldskap Einars Ben. Þórbergur Þórarson, Íslenzkur
aðall, bls. 177. Í Ofvitanum hæðist hann að fyrri aðdáun sinni á skáldskap Einars: „hin
rassmiklu orð í eignarfalli fleirtölu með greini [voru] hin unaðslegasta mynd skáld-
skapar“. Þórbergur Þórðarson, Ofvitinn, fyrra bindi, bls. 168. Þórbergur hefur einn-
ig á nokkrum stöðum talað um hvernig hann losnar undan „þeim póetíska svindlara
Einari Benediktssyni“ eins og stendur í „Endurfæðingarkrónikunni“. Stefán Einars-
son, Þórbergur Þórðarson fræðimaður – spámaður – skáld, fimmtugur, bls. 8. Sama
atviki lýsir hann í Meisturum og lærisveinum í kaflanum „fyrsta endurfæðing mín“
(bls. 23–26) en á báðum stöðum lýsir hann hvernig hann losnar undan hinu þunga
formi Einars og lærir að „vera nógu einfaldur“ þegar hann er að yrkja og hefur þá
mögulega tekist að losa sig við meira af persónuleika sínum. Þórbergur Þórðarson,
Meistarar og lærisveinar, bls. 25.