Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Síða 70
KRISHNaMURTI OG ÞóRBERGUR
69
í skilning um hana. aðrir hlutar af sjálfi hans, sem hann kallar kynmennið
og skáldið, eru farnir að heyja „einhvers konar nýlendustyrjöld“103 um hvort
Þórbergur elski meira, Elskuna eða fjörðinn hennar, þar sem einhver hluti af
persónu Þórbergs „var farinn að sjá fjörðinn fyrir sér sem sjálfstætt listaverk
án nokkurrar konu neins staðar í túni eða hlaðvarpa“:104
Í vor var fjörðurinn aðeins bakgrunnur að mynd hennar. Nú var
myndin annað veifið horfin af grunninum án þess að skilja eftir
sig spor í mold eða far í grasi. Hún hafði gefið firðinum fegurðina.
Var nú fjörðurinn að ræna hana ástinni? Var hún þá hið hverfula?
fjörðurinn hið eilífa?105
En Þórbergur leitar þá til „hins ópersónulega bak við þokur heimsvitundar-
innar“ til að reyna að skilja hvað sé að gerast og spyr hvort honum þyki
vænna um stúlkuna eða fjörðinn og rödd hins ópersónulega svarar:
Kynmenninu þykir vænna um stúlkuna. Skáldinu um fjörðinn. Í
vor þótti báðum vænna um stúlkuna. En látið yður aldrei úr minni
líða sjónarmið hins eilífa: Elskið stúlkuna eins og fjörðinn. Elskið
fjörðinn eins og stúlkuna.
103 Sú hugmynd að vera með mörg sjálf innra með sér var til umræðu meðal heimspek-
inga, sálfræðinga og guðspekinga við upphaf tuttugustu aldarinnar. Sálfræðingurinn
f.W.H. Myers sem guðspekingar héldu mikið upp á segir í bók sinni Human Per-
sonality and Its Survival of Bodily Death að mannsandinn hafi „samsett eða nýlendu
eðli“ (e. „composite or colonial character“ of the human psyche) og að upplifunin af
því sjálfi sem sé meðvitað sé „sannfæring hins einfalda manns um að það sé einungis
til eitt sjálf“ (e. „the plain man’s conviction that there is only one of him“) en sé
í raun einungis eitt sjálf af nokkrum öðrum mögulegum og að hin bíði á bak við
þröskuldinn (e. „threshold (limen)“) í undirvitundinni eftir að komast að. Hér er
notast við tilvitnanir alex Owen, The Place of Enchantment. British Occultism and the
Culture of the Modern, Chicago og London: The University Chicago Press, 2004,
bls. 174. Þórbergur segir frá því í Meisturum og lærisveinum að þegar hann fer á kaf í
guðspekina árið 1917 hafi hann pantað „þrjú undirstöðurit síðustu aldar: The Secret
Doctrine eftir Madömu Blavatsky, Persónuleika mannsins eftir fredrik Meyer og
Um uppruna tegundanna eftir Charles Darwin“, Meistarar og lærisveinar, bls. 66.
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir sýnir fram á að hugmyndum Þórbergs um séníið
svipi til kenninga Myers, sjá „„að predika dýraverndun fyrir soltnum hýenum““, bls.
24–25. Orðaval Þórbergs í þessum kafla í Íslenzkum aðli gefur líka til kynna að Þór-
bergur hafi verið að hugsa til kenninga Myers, þegar hann talar um „nýlendustyrj-
öld“ er þessir tveir fulltrúar sjálfsins hans fara að takast á, hvort hann elski meira,
stúlkuna eða fjörðinn hennar, Íslenzkur aðall, bls. 222–223.
104 Þórbergur Þórðarson, Íslenzkur aðall, bls. 223.
105 Sama rit, bls. 223.