Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 92
lEIKIð ORðTólUM
91
„mikilleik norrænnar menningar“ í ræðu og riti. Hann skrifaði meðal annars
fjölda greina í Morgunblaðið, Vísi og Fálkann undir lok fjórða áratugarins þar
sem hann fagnaði niðurstöðum Rutherfords um háleitt hlutverk Íslendinga
í mannkynssögunni og kvaðst hafa komist að sömu niðurstöðum sjálfur
eftir öðrum leiðum.44 Helga var reyndar vandi á höndum gagnvart Benja-
míníta-kenningu Rutherfords því honum var lítt gefið um gyðinga og kaus
að leiða hjá sér þann hluta spádómsins en einblína á meint forystuhlutverk
Íslendinga. Ekki greip Helgi til neinnar orðsifjafræði í þessu samhengi, en á
öðrum áratug aldarinnar hafði hann stundum komist á flug í orðskýringum,
meðal annars á latínu, sanskrít og fornri þýsku, þar sem íslenska var lögð til
grundvallar. Til dæmis um það sem þar var borið á borð má taka eftirfarandi
klausu úr grein í Ísafold árið 1912:
Íslenzkan er runnin upp suður í Himalaya eða Himinfjöllum, og án
þekkingar á íslenzku, betri þekkingar á íslenzku, en jafnvel þýzkir
fræðimenn hafa aflað sér hingað til, geta menn ekki áttað sig eins
og þarf, á Sannskrit og og hinni fornhelgu speki Indverja; ef til vill
ekki einu sinni Indverjar sjálfir [...].45
á hinn bóginn má skoða skopfærslu Þórbergs á orðsifjum og samanburðar-
málfræði frá almennara sjónarhorni. Hér er viðfangsefnið auðvitað orð og
merking þeirra, eða öllu heldur ástæður og tildrög þess að tiltekið orð merk-
ir eitt fremur en annað. Svo sem kunnugt er lagði Ferdinand de Saussure
áherslu á að merking orða réðist af viðtekinni venju en ekki af röktengslum
milli orðs og merkingar. Þó má ekki gleyma því að merking orða rís að
nokkru leyti af túlkun einstaklinga og þá skiptir ímyndunaraflið ekki litlu.
Segja má að í orðskýringunum í þættinum af Tummu Kukku sé Þórbergur
kominn á svipaðar slóðir og höfundur Lísu í Undralandi á sínum tíma – þótt
aðferðir hans séu aðrar. Í seinni bókinni um lísu, Gegnum spegilinn, er talið
að lewis Carroll láti Humpty Dumpty – eða Bogga bumbu eins og hann
44 Sjá til dæmis Helgi Pjeturss, „ljósið frá Íslandi. Enskur Íslendingavinur og íslensk
framtíð“, Fálkinn 2. október 1937, bls. 8; sami, „ljóssins borg“, Vísir, 18. október
1937, bls. 3; sami. „Íslenskt þjóðarhlutverk. Adam Rutherford og Halldór K. lax-
ness“. Morgunblaðið, 30. janúar 1940, bls. 4.
45 Helgi Pjeturss, „Greinar XII. Sannara um sannskri(f)t“, Ísafold, 23. október 1912,
bls. 254–255. Sjá einnig Helgi Pjeturss, „Fáfnir og forn þýzka“, Skírnir 1916, bls.
431–435; sami, „Greinar XI. Hamar Þórs“, Ísafold, 5. október 1912, bls. 239–240.
Nefnt skal að Benedikt Hjartarson hefur fjallað um höfuðrit Helga, Nýal, sjá
„„Magnan af annarlegu viti“. Um strangvísindalega dulspeki Helga Pjeturss“, Ritið
1/2017, bls. 113–173.