Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Side 134
„MInnIð ER GATASIGTI“
133
Það brakaði í beini, hann fleygði þér endilangri á jörðina og barnið
þitt grét. Hann hristi þig svo froðan flæddi út á milli tannanna í
þér, þú meigst á þig og drullan lak út úr þér, þú öskraðir eins og
djöfullinn sem býr í iðrum okkar allra. Það er hann sem ræður lík-
ama þínum, hann á þig. Hann kemur aftan að þér þegar síst skyldi
en þarf aldrei að troða sér inn í þig því hann býr innra með þér. Í
líki þess sem þú treystir, sem þú neyðist til að treysta dag hvern til
að geta lifað. (207)
Hér kemur fram að veikindi Sögu eru að sjálfsögðu hluti af líkama hennar
en ekki ytra áreiti eins og fyrri lýsing gæti gefið til kynna. Saga hugsar um
líkamann sem hús sem hún deilir með árásarmanninum.24 Þar með leggur
hún frekari áherslu á hættuna sem hún býr við því lýsingin getur minnt les-
endur á að flest kynferðisafbrot eru framin af einstaklingum sem brotaþoli
þekkir; jafnt vinum, kunningjum og fjölskyldumeðlimum; og að oft eiga þau
sér stað innan veggja heimilisins; sem undir eðlilegum kringumstæðum ætti
að vera öruggt. Vanmáttur Sögu kristallast í þverstæðunni sem einkennir
samband hennar við eigin líkama; hún hefur ekki stjórn á honum og hræðist
það sem hann getur tekið upp á um leið og hann er forsenda þess að hún er
til og getur lifað lífinu. Hugsanlega er ofbeldislíkingin afleiðing persónu-
legrar reynslu Sögu; þó ekki af kynferðislegu ofbeldi heldur af því að hafa
alist upp á heimili ofbeldismanns fyrstu ár lífs síns; að því verður betur vikið
hér á eftir.
Eins og fram hefur komið eru lyfin vopn Sögu gegn árásarmanninum/
flogaveikinni.25 Þegar hún verður ólétt ráðleggur læknir henni að hætta á
lyfjunum því þau geti haft alvarlegar aukaverkanir. Hún kýs að hunsa ráðin
„því hún vildi umfram allt ekki hugsa, allra síst muna eftir árásarmanninum.
Hún vildi ekki hafa hann vomandi yfir sér á meðan hún væri með barn á
brjósti. Hann passaði ekki inn í myndina af móður og barni“ (179). Saga tel-
ur sér trú um að hún hafi stjórn á líkamanum á meðgöngunni svo lengi sem
hún heldur áfram á lyfjunum en þegar henni er gert að hætta inntöku þeirra
upplifir hún vanmátt og skelfingu: „Árásarmaðurinn gat komið hvenær sem
er“ (179). Þótt veikindin marki sýn Sögu á eigin líkama er hún einnig með-
24 Um líkinguna LÍKAMInn ER HÚS/BYGGInG hafa ýmsir fjallað. Til dæmis
George Lakoff, Jane Espenson og Alan Schwartz, Master Metaphor List, Second
Draft, Berkeley: University of California, október 1991, fyrsta útgáfa ágúst 1989,
bls. 192; Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, „„Hann er bara á vondum stað“.
Reimleikahús í kvikmyndinni Rökkri eftir Erling óttar Thoroddsen“, Ritið 1/2019,
bls. 101–136, hér bls. 122–123.
25 Auður Jónsdóttir, Stóri skjálfti, bls. 179.