Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Síða 135
GUðRÚn STEInÞóRSDóTTIR
134
vituð um kosti hans því þegar sonur hennar, Ívar, fæðist upplifir hún frelsi
„undan árásarmanninum [og] [í] fyrsta skipti á ævinni [sér] hún líkama sinn
sem vin, eða öllu heldur vinkonu“ (179). Breytt afstaða er að einhverju leyti
aðferð Sögu til að afneita veikindunum og telja sér trú um að hún sé óhult
og hafi stjórnina. En árásarmaðurinn er ekki langt undan því þegar Saga fær
stóru flogin þrjú neyðist hún til að viðurkenna eigið stjórnleysi.
„Bíddu, hvernig var þetta allt saman?“
Flogaköstin í upphafi Stóra skjálfta eru eins og öflugur jarðskjálfti því í kjöl-
far þeirra er minni Sögu í brotum. Hennar bíður því það flókna verkefni
að reyna að setja saman fortíðina til að geta hent reiður á nútíðinni og hver
hún eiginlega er. Helsti ótti Sögu er að fá ekki að hafa son sinn hjá sér
vegna flogaveikinnar. Minnisvandræðin í kjölfar floganna auka óttann því
hún hræðist að vantraust fjölskyldunnar gagnvart sér komi til með að aukast
átti þau sig á því hve veik hún er.
Þegar Saga fær flogaköstin hefur hún ekki fengið krampakast í um tíu ár.
Það er afar einstaklingsbundið hvað kemur flogum af stað en meðal þess sem
talið er auka hættu á flogakasti er álag, þreyta og svefnleysi.26 Allt á við um
Sögu sem hefur nýlega skilið við eiginmann sinn27 og á auk þess lítið, veikt
barn. Þótt flogin séu aflvaki sögunnar eru það afleiðingar þeirra sem mestu
máli skipta; það er að segja minnisleysið og endurheimting minninga.28
26 nancy R. Temkin og Gay R. Davis, „Stress as a Risk Factor for Seizures Among
Adults with Epilepsy“, Epilepsia 25: 4/1984, bls. 450–456. Þess ber að geta að
mikil streita getur orsakað minnisleysi. Samanber Daniel L. Schacter, Seven Sins
of Memory. How the Mind Forget and Remembers, Boston og new York: Houghton
Mifflin Company, 2001, bls. 86–87.
27 Fyrrum eiginmaður Sögu heitir Bergur en í nafni hans felst ákveðinn merkingarauki
sem undirstrikar hlutverk hans í sambandinu við Sögu. nafnið Bergur „er leitt af
sögninni að bjarga, → Berg-, og viðskeytinu -ur og merkir ‘bjargvættur, hjálparhella’.“
Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson, „Bergur“, Nöfn Íslendinga, sótt 13. maí 2020
af snara.is. Bergur er með öðrum orðum kletturinn í lífi Sögu sá sem verndar hana
gegn árásarmanninum en allan þann tíma sem þau voru saman fékk hún aldrei
flogakast.
28 Flogaköstin má túlka sem líkingu fyrir „aðstæður þegar fólk hleypur á veggi
og missir tökin“, eins og leikkonan og leikstjórinn Tinna Hrafnsdóttir hefur
bent á. Slíkir árekstrar kalla oft á að fólk endurskoði sjálft sig og fortíðina en
það þarf Saga svo sannarlega að gera þegar hún neyðist til að reyna að muna
hið liðna og fara í gegnum erfiðar minningar til þess að skilja hver hún er. Sjá
Júlía Margrét Einarsdóttir og Viðar Eggertsson, „„Þöggun er svo algeng í
fjölskyldum““, RÚV, 11. mars 2020, sótt 16. júní 2020 af https://www.ruv.is/frett/
thoggun-er-svo-algeng-i-fjolskyldum?fbclid=IwAR2iLLCpDt9qQ0OnevEhKo_
anwT9t8-ulxrSCfvOGJVFRqUvf6P5RH4nJGI. Tekið skal fram að Tinna hefur