Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Page 137
GUðRÚn STEInÞóRSDóTTIR
136
því þótt tveir eða fleiri geti átt minningu af sama atburði eru sjónarhornin
alltaf ólík og minningarnar þar með aldrei nákvæmlega þær sömu.34 Þá er
vert að hafa í huga að væntingar, áhugi, langanir og skoðanir okkar sem og
annarra lita hvað við munum og hvernig.35
Öll reynsla sem maðurinn upplifir á ævinni markast sem slóðir í minni
hans. Slóðirnar bera með sér allar þær tilfinningar sem menn hafa á þeim
tíma sem minningin varð til en eitt af hlutverkum heilans er að safna saman
þessum slóðum og setja í samhengi við nýja reynslu mannsins. Á einn eða
annan hátt tengist hver ný reynsla annarri úr fortíðinni sem skýrir til dæmis
hvers vegna ákveðnar aðstæður eða atburður geta kallað fram minningu um
aðrar aðstæður eða atburð. Heimsókn á tiltekinn stað getur til dæmis dregið
fram minningar um staðinn þegar hann var heimsóttur síðast og sömuleiðis
geta tilfinningar sem fólk bar til staðarins í fortíðinni vaknað upp aftur við
endurkomu.36 Svipuð áhrif geta til dæmis lykt, bragð og tónlist haft á minn-
ingar einstaklings og tilfinningar.
Þegar fólk rifjar upp hvað hefur á daga þess drifið og ræðir minningar
sínar er ekki endilega víst að frásögnin sé ávallt í réttri tímaröð. Sálfræð-
ingurinn Daniel L. Schacter hefur líkt minningum fólks við flókinn vefnað
34 Um þetta hefur Auður Jónsdóttir fjallað í viðtali við Árna Matthíasson en þar segir
hún: „Ég hef upplifað það sem fullorðin að glíma við minningar sem ég var búin
að gleyma en systir mín ekki. Það kemur mér stundum gjörsamlega í opna skjöldu
þegar systir mín, sem er fimm árum yngri en ég, man eitthvað sem ég man ekki
en samt vorum við báðar viðstaddar. Þetta er skrýtið en nokkuð sem margir hafa
upplifað og við erum alltaf að upplifa. Ef við myndum tala um þessa stund þar sem
við sitjum núna eftir nokkur ár þá hefðum við upplifað hana hvort á sinn hátt. Svo er
líka misjafnt hvað við festum í minninu og hvernig við gerum það og misjafnt hvað
hentar heilanum, hvernig hentar honum að hafa hlutina til að fúnkera áfram.“ Árni
Matthíasson, „Heilinn er tækifærissinnuð vinnslustöð“, bls. 48.
35 Árni Kristjánsson, „Að skapa minningar. Minni athygli og áreiðanleiki vitnisburðar“,
Sálfræðiritið 19/2014, bls. 21–39, hér bls. 21.
36 Patrick Colm Hogan, The Mind and its Stories. Narrative Universals and Human
Emotion, Cambridge, new York, o.fl.: Cambridge University Press, 2003, bls.
156–159 og Daniel L. Schacter, Seven Sins of Memory. How the Mind Forget and
Remembers, bls. 9. Rithöfundurinn Svava Jakobsdóttir lýsti upplifun af þessu tagi
afar vel í viðtali sem Dagný Kristjánsdóttir tók við hana. Svava sagði: „Ég varð fyrir
reynslu fyrir skömmu sem mér fannst mjög einkennileg. Ég var á ferð í Kanada, í
bænum þar sem ég ólst upp, og stóð á stígnum þar sem ég var vön að ganga á leiðinni
í skólann. Skyndilega var mér kippt út úr nútímanum og ég varð aftur barn. Ég
var á sviði bernskunnar, í hinni sterku tilfinningalegu upplifun barnsins og ekkert
annað var til. Þegar þetta var afstaðið gerði ég mér grein fyrir að ég hafði orðið átta