Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 142
„MInnIð ER GATASIGTI“
141
tráma og minnis og skal það því gert áður en rætt verður nánar um áföllin í
lífi Sögu, hvernig hún minnist þeirra og hvaða áhrif þau hafa haft á hana og
hennar nánustu.
Minnið er eins og laukur
Það er algengt að fólk takist á við ýmsa atburði fortíðarinnar með afneitun
og reyni að leiða hjá sér erfiðar minningar en í sumum tilvikum getur það
grafið þær svo rækilega niður að þær gleymast alveg. Til dæmis er vel þekkt
að fólk geti gleymt trámatískum atburði að hluta eða í heilu lagi.46 Í tilviki
Sögu er afturvirka minnisleysið bæði afleiðing floganna og einkenni áfalla-
streituröskunar sem tráma getur leitt af sér. Eftir því sem líður á söguna
verður nefnilega ljóst að Saga hefur upplifað ýmis trámu en þau helstu tengj-
ast veikindum hennar og stjórnleysinu sem þau fela í sér, skilnaðinum við
Berg, alvarlegum veikindum sonar hennar og systurmissi í bernsku. Tráma-
tískur atburður felur í sér sársaukafulla reynslu en dæmi um slíka atburði eru
alvarleg veikindi og að sjá einhvern nákominn sér láta lífið rétt eins og Saga
hefur mátt reyna.47 Tráma eða sálrænt áfall48 hefur verið skilgreint sem svo
að „reynsla verði áfall þegar menn ná ekki að skilja – þ.e. ná ekki að sund-
urgreina (e. dissociate) – alla þætti hennar“.49 Það er misjafnt hvernig fólk
vinnur úr trámatískri reynslu. Með hjálp sköpunarhæfni og sveigjanleika
tekst sumum að laga sig að skelfilegum aðstæðum en aðrir kunna að þróa
með sér áfallastreituröskun (e. post–traumatic stress disorder (PTSD))50 en hún
hefur verið skilgreind á þá leið að persóna „reyndi, varð vitni að eða mætti
atburði eða atburðum sem fólu í sér raunverulegan eða yfirvofandi dauða,
46 Bessel A. van der Kolk, The Body Keeps the Score. Brain, Mind, and Body in the Healing
of Trauma, new York: Penguin Books, 2015, bls. 191.
47 Sjá til dæmis Bessel A. van der Kolk, „Posttraumatic stress disorder and the nature
of trauma“, Dialogues in clinical neuroscience 2: 1/2000, bls. 7–22, hér bls. 7. Dæmi
um aðra trámatíska atburði eru líkamsárásir, kynferðislegt ofbeldi, stríð, slys og
náttúruhamfarir. Sama heimild, bls. 7.
48 Hér verður jöfnum höndum talað um tráma og áfall sem sama fyrirbærið.
49 Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, „óvistlegar herbergiskytrur. Um rými og annan
hluta bókarinnar Af manna völdum“, Hug⁄raun. Nútímabókmenntir og hugræn fræði,
Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015, bls. 111–132, hér bls. 129.
50 Bessel A. van der Kolk og Alexander C. McFarlane, „The Black Hole of Trauma“,
Traumatic Stress. The Effects of Overwhelming Experience on Mind, Body, and Society,
ritstjórar Bessel A. van der Kolk, Alexander C. McFarlane og Lars Weisaeth, 1996,
bls. 3–23, hér bls. 3.