Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Síða 146
„MInnIð ER GATASIGTI“
145
í ímyndum, draumum, óvelkomnum endurlitum og hugsunum. Minningin
um trámað sé því ekki aðgengileg á sama hátt og aðrar minningar.62
Skjólstæðingar van der Kolk og félaga hafa lýst upplifun sinni af endur-
heimtingu trámatískra minninga svo að í upphafi hafi þeir munað trámað
í formi tiltekinnar skynjunar sem hafi birst þeim í leiftrum eða stökum
brotum. Til að byrja með hafi leiftrin verið bundin einu skynáreiti í senn en
eftir því sem meðvitundin um trámað hafi orðið meiri því fleiri skynáreiti
hafi komið til þeirra samtímis. Þá hafi hæfnin til að segja frá trámanu, frá-
sagnarminnið, aukist jafnt og þétt.63 Bessel A. van der Kolk og Otto van der
Hart hafa einmitt bent á að eitt einkenni trámaminnis séu erfiðleikar með
að búa til heildstæða frásögn af áfallinu því til að byrja með geti hún tekið
margar klukkustundir í flutningi en eftir því sem einstaklingur nær betri
tökum á minningunni tekst honum að móta hana og segja frá henni á mun
styttri tíma.64 Þegar fólk fer að öðlast heildstæðari mynd af því sem gerst
hefur, byrjar að raða minningabrotunum saman og segja frá trámanu verður
það smám saman hluti af sjálfsævisögulegu minni þess.65 Og rétt eins og
gerist með annað sjálfsævisögulegt minni er þá líklegt að einstaklingur noti
ímyndunaraflið til að fylla inn í eyðurnar til að búa til enn fyllri og skýrari
mynd af því sem hefur hent hann.
62 Cathy Caruth, „Trauma and Experience. Introduction“, Trauma. Explorations in
Memory, ritstjóri Cathy Caruth, Baltimore og London: The Jones Hopkins University
Press, 1995, bls. 3–12, hér bls. 4–5. Sem dæmi um góða íslenska bókmenntagreiningu
á þessum nótum má nefna grein Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, „Tregðan í
frásögninni. Yfir Ebrófljótið“, bls. 129–141. Tekið skal fram að Sigrún Margrét
Guðmundsdóttir hefur gert góða grein fyrir hvernig myndmál áfallafræða er að
einhverju leyti sótt til gotneskrar hefðar en hún hefur til dæmis fjallað um hvernig
tráma birtist gjarnan í formi afturgangna í kvikmyndum og bókmenntum. Sigrún
Margrét segir: „Reimleikarnir hegða sér á sama hátt og áföll, eitthvað hrindir af stað
draugum fortíðarinnar sem taka að ásækja sögupersónur. Heilinn verður andsetinn
af minningum sem birtast sem reimleikar í húsum manna í skáldskap. Rof verður
á milli veruleikans eins og persónurnar þekkja hann vegna þess að reimleikarnir
tilheyra öðru sviði.“ Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, „„Hann er bara á vondum
stað“. Reimleikahús í kvikmyndinni Rökkri eftir Erling óttar Thoroddsen“, bls.
132–133. Sjá einnig umfjöllun Sigrúnar Margrétar um tengsl áfalla við gotneskt
myndmál, „„Tveggja hæða hús á besta stað í bænum“. Um Húsið eftir Egil
Eðvarðsson“, bls. 156–163.
63 Bessel A. van der Kolk, „Trauma and Memory“, bls. 287–289; Bessel A. van der
Kolk, James W. Hopper og Janet E. Osterman, „Exploring the nature of Traumatic
Memory. Combining Clinical Knowledge with Laboratory Methods“, bls. 16.
64 Bessel A. van der Kolk og Onno van der Hart, „The Intrusive Past. The Flexibility
of Memory and the Engraving of Trauma“, bls. 163.
65 Sama heimild, bls. 176.