Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Síða 154
„MInnIð ER GATASIGTI“
153
til að hún gæti annast hana. Þegar varirnar á Katrínu blánuðu reyndi Saga
að hrópa á hjálp en enginn heyrði í henni fyrr en það var orðið of seint.
Eftir barnslátið hætti faðir þeirra að drekka, móðir þeirra einangraði sig og
enginn ræddi um Katrínu.
Það reynist Sögu erfiðara að ná tökum á frásagnarminninu um lát Katr-
ínar en um veikindi Ívars. Áföllin eru enda ólík, annað er á allra vitorði og
um það er rætt en hitt hefur verið þaggað niður í áratugi. Þótt Saga reyni
„að púsla saman mynd úr orðum Jóhönnu“ (193) tekst henni ekki að sjá
fullmótaða mynd af Katrínu fyrir sér; hún sér aðeins fót hennar en ekki
andlit. Minnið um trámað sjálft er einnig brotakennt en brotin sem Saga
nemur best eru tilfinningarnar sem tengjast atvikinu; það er að segja ógnin,
hræðslan og umfram allt óbærilegi sársaukinn.79 Minningin um dauða Katr-
ínar hefur of lengi verið í felum til þess að Saga nái henni almennilega upp í
vitundina en með því að hlusta á Jóhönnu og leyfa henni að segja frá þessum
erfiða atburði verður hún meðvitaðri um fortíðina. Engu að síður blundar í
henni efinn; gerðist allt eins og Jóhanna man það?
Samræður systranna vekja enn á ný upp vangaveltur um minnið og
hvernig það virkar. Eins og fyrr var drepið á hafa rannsóknir sálfræðinga
leitt í ljós að menn muna sjaldnast fortíðina nákvæmlega heldur er þeim
tamt að beita ímyndunaraflinu og fylla inn í eyður og endurskapa þannig hið
liðna.80 Stundum kann sköpunin þó að ná yfirhöndinni svo að falskar minn-
ingar verða til. Það getur til dæmis gerst þegar einstaklingur segir sjálfum
sér sömu söguna aftur og aftur þangað til hann hættir að gera greinarmun
á hvað er skáldað og hvað gerðist raunverulega eða var lifað. Hann endar
þar með á að telja sér trú um að ákveðinn uppspuni sé sannur. Á sama hátt
geta aðrir aðilar brenglað minni einstaklings og skapað hjá honum falskar
minningar.81
að gera sitt til að bæta ástandið á heimilinu til dæmis með því að hjálpa móður
sinni að annast veikt barn og sporna gegn ofbeldi föðurins. Um staðalímyndir barna
alkóhólista sjá Sölvína Konráðsdóttir, „Sálfræðilegar skýringar á alkóhólisma“,
Fíkniefni og forvarnir. Handbók fyrir heimili og skóla, ritstjórar Árni Einarsson og
Guðni R. Björnsson, Reykjavík: Fræðslumiðstöðin í forvörnum, 2001, bls. 105–112,
hér bls. 108.
79 Auður Jónsdóttir, Stóri skjálfti, bls. 193–194.
80 Samanber til dæmis Daniel L. Schacter og Donna Rose Addis, „The cognitive
neuroscience of constructive memory. Remembering the past and imagining
the future“, Philosophical Transactions of the Royal Society B. Biological Sciences 362:
1481/2007, bls. 773–786, hér bls. 773.
81 Sjá til dæmis Elizabeth F. Loftus, „Creating False Memories“, Scientific American 277:
3/1997, bls. 70–75 og Elizabeth F. Loftus, „Make–Believe Memories“, bls. 869.