Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Page 158
„MInnIð ER GATASIGTI“
157
trámans og heimi nútímans – því með því að viðurkenna áfallið sameinar
hún heimana; trámað verður hluti af lífssögu hennar. Þar með þarf hún ekki
lengur að eyða ómældri orku í að afneita sársauka fortíðarinnar, óttanum og
sektarkenndinni heldur getur hún samþykkt kenndirnar og verið meðvituð
um þær án þess þó að þær stjórni lífi hennar og líðan. Í lok sögu hefur Saga
öðlast frásagnarminni um fyrri áföll og er reiðubúin til að deila reynslunni
með Bergi, segja honum frá Katrínu og útskýra hvers vegna hún hefur van-
treyst honum fyrir syni þeirra. Sjálfsskoðunin hefur gert hana meðvitaða
um eigin mistök í uppeldi Ívars en með því að viðurkenna þau er ljóst að
afneitunin litar ekki lengur líf hennar, hún hefur gert upp við fortíðina og
er tilbúin að einbeita sér að nútíðinni. Saga kemst að þeirri niðurstöðu að
hún vill rækta ástina og eyða lífinu með Bergi. Veikindin og sjálfsskoðunin
í kjölfarið hafa kennt henni að hún stendur ekki ein, hún þarf ekki alltaf að
vera við stjórnartaumana og afneita erfiðleikum fortíðarinnar heldur getur
hún slakað á og treyst öðrum. Það er því einkar írónískt að Saga er of sein,
Bergur er kominn í nýtt samband en það er óþægileg staðreynd sem hún
hefur gleymt – eða kosið að gleyma.
Að lokum
Í leitinni að sjálfri sér finnur Saga möppu á tölvunni sinni sem heitir Mark-
mið. Mappan er að vísu tóm að undanskilinni einni setningu: „Hvorki stjórna
né vera stjórnað“ (180). Í lok bókar virðist markmiðinu vera náð því með
ítarlegri sjálfsskoðun hefur Saga komist á þann stað að hún getur sleppt
tökunum og treyst öðrum. Það er rækilega undirstrikað í lokakaflanum en
þá er sem Saga stari sig í störuflog85 svo hún fjarar smátt og smátt út úr veru-
leikanum og sjálfri sér. ólíkt krampafloginu í upphafi bókar sem skapaði
óvissu og vanlíðan eykur störuflogið sátt og vellíðan.86 Veruleikinn verður
draumkenndur þegar Saga lýsir því hvernig hún verður sífellt léttari og
fjarlægari bæði líkama sínum og aðstæðum. Störuflogið hefur þau áhrif að
85 Störuflog eru flog sem „vara stutt, oft nokkrar sekúndur. Viðkomandi missir
meðvitund án þess að detta. Starir fram fyrir sig, sjáöldur víkka. Síðan kemst
hann til meðvitundar á ný og tekur þá gjarnan upp fyrri iðju eins og ekkert hafi
í skorist.“ „Spurningar og svör“, Lauf, sótt 4. júlí 2020 af http://www.lauf.is/
spurningar-and-svor/.
86 Auður Jónsdóttir hefur greint frá því að sem barn hafi hún stundum starað sig í
störuflog því henni þótti tilfinningin svo góð, að fjara út. Samkvæmt henni búa
fleiri yfir slíkri reynslu. Auður Jónsdóttir, „Auður Jónsdóttir. Um heilann, opinn
fræðslufundur um heilann í blíðu og stríðu“, https://vimeo.com/148931471.