Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Side 168
HaNS æR OG KýR
167
Gestur er gerður framandi og svolítið á ská við umhverfi sitt með tungu-
taki sínu sem er gegnsýrt fræðilegu, knosuðu ritmáli, kansellístíl, isma–
endingum og fleira í þeim dúr. Það er hreinlega spursmál hvort samsláttur
orða, þar sem orðabil vantar milli orða, til dæmis: „menningarmódel,grunn-
skema eðaáberandimetafóruííslenskri menningu“ (33) sé viljaverk til að
ítreka þessa stofnanamállýsku og orðaleppi háskólasamfélagsins eða aðeins
yfirsjón af hálfu „setjara“. Fleiri dæmi er að finna með jöfnu millibili í bók-
inni, til dæmis „Feitakýrinþróastsíðanyfiríhinahagkvæmukúkapítalismans“
(177).19 Eintakið sem undirritaður hefur undir höndum er úr annarri útgáfu
bókarinnar og má því gera því skóna að svona eigi þetta að vera. Saman-
burður við fyrstu prentun sýnir sömu niðurstöður og maður hefði haldið að
svona „villur“ væru leiðréttar, væru þær yfirhöfuð villur.20
Loks ber að nefna Svar við bréfi Helgu, sem segir af bóndanum Bjarna
Gíslasyni á Kolkustöðum. Sagan er skrifuð eins og eitt langt bréf af manni
sem hefur búið í sveit megnið af 20. öldinni, náttúrubarni sem hefur „skotið
ref skítandi“ og „skeint [sig] á snjó“.21 Í bréfi bóndans má finna kjarnyrtan
kveðskap, tilvísanir í Íslendingasögurnar og málshætti sem ætla mætti að
væru horfnir í dumbungi gleymskunnar. Hrifgjarn maður gæti sagt að svo
vandlega sæktist Bergsveinn eftir að fanga málfar búkarlsins að eimdi eftir
af sveitalyktinni á blaðsíðunum. Má þar meðal annars nefna lýsingar á fjár-
þukli.
Ég sökkti fingrunum í togmikla ullina, þuklaði fyllinguna í bring-
unni og þaðan niður með rifjunum yfir á geislungana en fann
hvergi skarða. Síðan tók ég á bakinu og þreifaði út spjaldhrygginn
og aftur fyrir til að gá hvort hnotaði á mölunum. Þá renndi ég
fingrunum eftir bringuteinunum, upp á háþornin og niður með
þverþornunum […] Ég tók þá á þykkum og vöðvamiklum lærunum
niður á hækilinn og sá að féð var brúnslétt og vel fyllt og tók af
allan vafa um að allar myndu hafa það fram úr.22
19 Sama má sjá á bls. 40, 55, 142 og áreiðanlega víðar.
20 Þar að auki er óneitanlega skemmtilegra að hugsa sér að fagurfræði konkretljóðsins
hafi ruðst inn á umráðasvæði frásagnarinnar til að miðla sömu hugmynd, nema á
myndrænan máta. Sjá nánar um konkretljóð: Benedikt Hjartarson, „Draumurinn
um hinn myndhverfa mann. Um framúrstefnu og konkretljóð“, af Steypu – afbók
#5, ritstjórar Eiríkur Örn Norðdahl og Kári Páll Óskarsson, Reykjavík: Nýhil, 2010,
bls. 74–104.
21 Bergsveinn Birgisson, Svar við bréfi Helgu, Reykjavík: Bjartur, 2010, bls. 81, 77.
22 Sama rit, bls. 25.